Ísland er að dragast aftur úr í alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn.
Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Morgunblaðið.
Margir þættir spila saman sem valda þessu að sögn Jóhannesar. Nefnir hann ýmsa þætti eins og til dæmis það að á Íslandi sé ekki veitt nægilegu fé í neytendamarkaðssetningu.
Nýlega veitti menningar- og viðskiptaráðherra 100 milljónum króna í slíka markaðssetningu vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en það sé aðeins dropi í hafið ef við ætlum í almennilega samkeppni við nágrannaþjóðir.
„Við erum til dæmis að horfa á það að Finnair hefur, vegna þess að þau geta ekki lengur flogið yfir Rússland og Asíumarkaðurinn hefur verið þeim lokaður í nokkur ár, beint sjónum sínum mun meira að Bandaríkjunum. Þannig að samkeppnin meðal Norðurlandanna um bandaríska markaðinn hefur aukist. Það er ekki síst vegna þess að markaðssetning hjá þessum þjóðum tók verulega við sér eftir faraldurinn þegar við hins vegar drógum úr henni,“ segir Jóhannes.
Þá eru fleiri þættir sem hafa áhrif á samkeppnisstöðu Íslands eins og til dæmis hærri og þrálátari verðbólga en í nágrannalöndum og öðrum samkeppnisríkjum Íslands.
„Og vegna mikillar eftirspurnar hefur verðlagið líka hækkað á ýmsum ferðaþjónustuvörum, gistingu o.fl., en gengi krónu hefur líka sitt að segja. Því eru ýmsir þættir sem valda því að við erum að dragast aðeins aftur úr í þessari alþjóðlegu samkeppni.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.