Stífar æfingar standa yfir í Borgarleikhúsinu á nýjum söngleik samin í kringum lög Alanis Morissette. Söngleikurinn nefnist Eitruð lítil pilla eftir samnefndri plötu söngkonunar, Jagged Little Pill, sem kom út árið 1995 og sló í gegn svo um munaði. Leik- og söngkonan Jóhanna Vigdís Arnardóttir fer með eitt aðalhlutverka, en hún sagði skilið við leikhúsið fyrir sjö árum og settist á skólabekk. Í kjölfarið fékk hún vinnu hjá Samtökum iðnaðarins, en leikhúsið togaði nú aftur í hana og hún svaraði kallinu. Jóhanna er mörgum eftirminnileg úr söngleikjum á borð við Mary Poppins, Billy Elliot og Mamma Mía og fagna þeir því sjálfsagt endurkomu hennar á stóra sviðið.
Jóhanna, oft kölluð Hansa, bauð blaðamanni í tebolla í fallegri íbúð sinni í Hlíðunum. Þar var gott að fara yfir málin; ræða leiklist og söng, ástina og lífið og drauma í fortíð og framtíð.
Er þetta endurkoma í leikhúsið?
„Ég ætlaði ekkert aftur í leikhúsið en Brynhildur og Álfrún píndu mig í þetta,“ segir Hansa brosandi, og á við Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur sem leikstýrir Eitraðri lítilli pillu og Brynhildi Guðjónsdóttur leikhússtjóra.
„Ég elska leikhúsið og ég elska að vera bak við tjöldin og mér finnst ofsalega gaman í leikhúsinu. Þar er fólkið mitt. En mig langaði ekki aftur upp á svið. En þær létu mig svo hlusta á tónlistina og ég féll fyrir henni, og eins fyrir sögunni. Það þurfti kannski ekki að snúa upp á höndina á mér því verkið er svo flott,“ segir hún og nefnir að handritshöfundur verksins, Diablo Cody, sé sá sami og skrifaði handrit kvikmyndarinnar Juno sem sló í gegn.
„Það er svo mikill kraftur í tónlistinni og þarna var á ferðinni reið ung kona sem þorði að segja meiningu sína,“ segir Hansa og segir að tilfinningar og textinn taki yfir þegar hún syngi lög Morissette og á þá við að söngurinn sjálfur þurfi ekki að vera fullkominn.
„Ég læt bara vaða eins og hún gerði og er áberandi í hennar söng,“ segir Hansa og segir söguna skrifaða utan um lögin.
„Sagan er um ungt fólk, fjölskyldur, hinseginleika, fíkn, markaleysi, gömul áföll og kynslóðabilin en við Valur Freyr leikum foreldrana Mary Jane og Steve sem eiga ættleiddu dótturina Frankie, sem Aldís Amah leikur, og soninn Nick, leikinn af Sigurði Ingvarssyni. Þetta er bandarískur veruleiki en sammannleg saga. Þessi söngleikur er hrár og allt öðruvísi en ég hef áður tekið þátt í.“
Hansa datt inn í leikhúsheiminn nánast fyrir tilviljun, en það var árið 1994 að söngleikurinn Hárið var settur upp í Loftkastalanum.
„Það voru prufur í Gamla bíói og ég ákvað að fara og komst inn. Baltasar, sem þekkti aðeins systur mína, leyfði mér að fá smá hlutverk sem túristakerling, en ég var annars í kórnum. Þá kviknaði sá draumur að fara í leiklist, en það var Ingvar Sigurðsson sem pikkaði í mig eitt sinn og sagði: „Hefurðu eitthvað spáð í að fara í leiklist? Þú ættir alveg erindi.“ Hann sáði þarna einhverju fræi en ég hafði ekki litið á það sem möguleika, en ég var þarna á þeim forsendum að ég væri söngkona,“ segir Hansa og segist hafa skellt sér í inntökuprófið og komst strax inn.
„Ástæðan fyrir því að ég lét algjörlega slag standa var af því ég komst ekki inn í flugfreyjuna. Ég og Ragnheiður frænka vildum báðar vera flugfreyjur og hún fékk vinnu en ekki ég. Ég var svo spæld og fór þá í prufur í leiklistarskólanum,“ segir hún og hlær.
„Ég átti ekkert von á því að komast inn. Þetta var rosalega framandi, en stundum hef ég gaman af því að henda mér í djúpu laugina og engjast, og þetta var eitt af þeim augnablikum; að fara í inntökupróf í leiklistarskólann,“ segir hún.
Eitruð lítil pilla er frumsýnd á föstudaginn 23. febrúar og standa sýningar til 27. apríl en verða aftur í haust.
„Við byrjum á þessum sýningum en getum ekki sýnt lengur en út apríl því þá byrja aftur sýningar á Níu lífum. Það er engin leið að hætta,“ segir Hansa og brosir.
Hansa er spennt að byrja að sýna í næstu viku. Spurð hvað taki svo við segist hún ekki vita það.
„Nú er gaman í leikhúsinu og ég hefði alveg gaman af því að vinna eitthvað frekar bak við tjöldin. Þarna er liðið mitt og það er gaman að koma aftur eftir pásu.“
Ítarlegt viðtal er við Jóhönnu Vigdísi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.