Byggt við flugvöllinn enn á ný

Lóðirnar við Menntasveig (rauð punktalína) eru vestan við byggingu HR, …
Lóðirnar við Menntasveig (rauð punktalína) eru vestan við byggingu HR, gegnt flugskýli Gæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Uppbygging er að hefjast á lóðum við Menntasveig sem tilheyra Háskólanum í Reykjavík. Þessar lóðir eru skammt frá austurenda austur-vestur-flugbrautar Reykjavíkurflugvallar. Leyfi er fyrir allt að 40 þúsund fermetra byggingum á fjórum lóðum.

Engar rannsóknir hafa farið fram á því hvort þessar byggingar kunni að hafa áhrif á flugstarfsemi vallarins, að sögn Sigrúnar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia innanlandsflugvalla. Enda liggi ekki fyrir hversu umfangsmiklar byggingar þetta verða.

Mikil uppbygging hefur verið í nágrenni við Reykjavíkurflugvöll á síðustu árum. Stórt íbúðahverfi er risið á svæði Vals á Hlíðarenda, nýtt sjúkrahús er að rísa við Hringbraut, mörg stórhýsi hafa verið byggð í Vatnsmýri, stórbygging HR reis og áfram mætti telja.

Þá hyggur Reykjavíkurborg á uppbyggingu íbúðabyggðar í Skerjafirði með tilheyrandi þjónustu og einhverri atvinnustarfsemi austan við núverandi Skerjafjarðarhverfi. Í apríl 2023 var gefin út skýrsla samin af starfshópi innviðaráðuneytisins. Hlutverk hans var að vinna flugfræðilega rannsókn á fyrirhugaðri byggð í Skerjafirði auk áhrifa hennar og tilheyrandi framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Jafnframt að greina hvort og þá hvernig tryggja megi að flug- og rekstraröryggi flugvallarins skerðist ekki.

Starfshópurinn skoðaði m.a. skýrslu hollensku flugrannsóknarmiðstöðvarinnar NLR frá árinu 2020 á mögulegum áhrifum nýrrar byggðar í Skerjafirði á meðalvindhraða og kviku (e. turbulence) á Reykjavíkurflugvelli sem hvort tveggja ræður miklu um flugskilyrði yfir og á flugvellinum.

„Við erum ekki komin að ákvörðun varðandi aðkomu Hollendinganna að þessu en það er ljóst að þar er mesta sérfræðikunnáttan til að meta áhrif bygginga,“ segir Sigrún Björk aðspurð hvort hollenska fyrirtækið hafi verið fengið til að skoða áhrifa nýbygginga við HR.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra veitti hinn 23. janúar sl. Háskólanum í Reykjavík (HR) 200 milljóna króna stuðning til fjármögnunar undirbúnings að uppbyggingu á allt að 6.000 fermetra rannsókna- og nýsköpunarhúsi við skólann. Húsið verði lykillinn að frekari sókn HR í rannsóknum og kennslu í tæknigreinum og efli samstarf skólans við atvinnulífið. Gert er ráð fyrir að húsið verði samnýtt með sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum og stofnunum í tækniþróun og rannsóknum. Þannig er til dæmis gert ráð fyrir að áhersla verði lögð á aðstöðu fyrir öflugar byggingarrannsóknir.

Stuttur framkvæmdatími

Gert er ráð fyrir að rannsókna- og nýsköpunarhúsið rísi á lóð vestan við aðalbyggingu HR, þ.e. við Menntasveig 4, en leyfilegt byggingarmagn þar er 11.300 fermetrar. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 3,7-4,6 milljarðar króna, eftir því hve sérhæfð aðstaðan verður. Stefnt er að stuttum framkvæmdatíma og standa vonir til þess að húsið geti orðið tilbúið árið 2025.

Að sögn Áslaugar Örnu er um að ræða mikið framfaraskref, enda verði húsið eitt það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. „Háskólinn í Reykjavík hefur verið mikill brautryðjandi í tæknigreinum og útskrifar yfir helming allra þeirra sem ljúka háskólaprófi í raunvísinda-, verkfræði- og tæknigreinum (STEM) hér á landi. Skólinn hefur metnað til að auka fjölbreytni námsins og bæta kennslu og rannsóknir. Til að svo megi verða þarf hann fjölbreyttara húsnæði,“ sagði Áslaug Arna.

Ragnhildur Helgadóttir rektor HR segir að verulega sé farið að þrengja að starfsemi skólans og að nýtt rannsókna- og nýsköpunarhús myndi gjörbylta allri aðstöðu til kennslu, rannsókna og nýsköpunar.

Hinn 13. febrúar 2007 gerðu Reykjavíkurborg og Háskólinn í Reykjavík með sér samkomulag um ráðstöfun á liðlega 20 hekturum lands undir starfsemi HR og tengda starfsemi á sviði þekkingar, rannsókna, hátækni eða nýsköpunar. Í janúar 2020 var gerður viðauki í tilefni væntanlegra breytinga á deiliskipulagi fyrir háskólasvæðið, þar sem gert er ráð fyrir að byggð verði stoppistöð undir nýja borgarlínu. Borgarlínan verður staðsett við göturnar Nauthólsveg, Menntaveg og Menntasveig og mun liggja í gegnum lóðina Menntasveig 8, þar sem borgarlínustoppistöðin verður.

Samkvæmt viðaukanum er gert ráð fyrir að byggingarmagn lóðanna Menntasveigs 2-8 verði aukið.

Hugsanlegt hámarksbyggingarmagn lóðanna gæti orðið sem hér segir: Menntasveigur 2, 12.900 fermetrar, Menntasveigur 4, 8.400 fermetrar, Menntaveigur 6, 7,200 fermetrar, og Menntasveigur 8, 12.300 fermetrar. Samtals eru þetta 40.800 fermetrar. Allar byggingarnar yrðu þrjár hæðir.

Fréttin birtist upphaflega í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka