Veirusjúkdómurinn hettusótt hefur greinst meðal starfsmanna Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Nemendum verður boðinn bólusetning í skólanum.
Þetta kemur fram í bréfi sem sóttvarnarlæknir sendi starfsfólki skólans og foreldrum barna á fimmtudag.
Á miðvikudag var greint frá því að í byrjun febrúar hefði hettusótt greinst á höfuðborgarsvæðinu.
Í kjölfarið hvatti Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir fólk að fara í bólusetningu við hettusótt, ef við ætti, en hettusótt getur smitast á milli þeirra sem eru óbólusettir eða meðal þeirra sem ekki hafa fengið hettusótt áður. Þeir sem eru tvíbólusettir eru í lítilli hættu að smitast. Guðrún kvaðst þó ekki eiga von á víðtækri útbreiðslu sjúkdómsins.
Bólusetning gegn hettusótt hófst hér á landi árið 1989. Fólk sem er fætt á árunum 1985–1987 getur verið næmt fyrir hettusótt ef það hefur ekki fengið bólusetningu á fullorðinsárum. Eldri árgangar eru álitnir almennt ónæmir vegna tíðra hettusóttarfaraldra sem gengu fram til 1984.
Í bréfinu til starfsfólks Hraunvallaskóla og foreldra barna hvetur sóttvarnaræknir sérstaklega óbólusett starfsfólk sem er fætt á tímabilinu 1980–1987 til að þiggja bólusetningu á heilsugæslunni.
„Bóluefni gegn hettusótt eru jafnan samsett bóluefni með mislingum og rauðum hundum. Bólusetningin er gjarnan skammstöfuð MMR í skírteinum, dæmi um sérlyfjaheiti sem geta komið fram í Heilsuveru eru M.m.r.ii, Priorix og M-M-R-VAXPRO
Boðið verður upp á bólusetningu í skólanum á næstu dögum, fyrir öll börn sem ekki hafa fengið tvo skammta af MMR. Óbólusett starfsfólk, sérstaklega fólk sem er fætt á tímabilinu 1980–1987, er hvatt til að þiggja bólusetningu á heilsugæslunni,“ segir í bréfi sóttvarnarlæknis.