Hælisleitendur koma aftur eftir synjun

Útlendingastofnun
Útlendingastofnun mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, þekkir ekki mál palestínsks manns sem lenti í átökum á vinnusvæði í Fossvogi en segir að meginreglan sé sú þegar einstaklingar sækja um alþjóðlega vernd öðru sinni þá sé umsókninni vísað frá.

Aftur á móti geti sérstakar aðstæður eða nýjar upplýsingar um hagi viðkomandi gert það að verkum að endurtekin umsókn sé tekin til meðferðar öðru sinni.

Ástæða fyrirspurnarinnar er mál palestínsks manns sem handtekinn var í liðinni viku á atvinnusvæði í Fossvogi þar sem hann lenti í hnífabardaga við annan mann.

Að sögn Páls Magnússonar, forseta bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum hefur hann heimildir fyrir því að manninum hafði þegar verið synjað um alþjóðlega vernd og fengið endurkomubann árið 2022. Hann fékk svo alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2023 samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Geta dvalið í 90 daga

Þórhildur segir að hún geti ekki svarað nákvæmlega fyrir um aðstæður þessa manns en segir jafnframt að það hafi komið fyrir að einstaklingar sem hafa fengið endurkomubann hafi komið aftur til landsins.

Ein leiðin er sú að einstaklingar sem hafa þegar fengið vernd í öðru Evrópulandi, t.a.m. Grikklandi, hafa ferðaheimild inni á Shengen-svæðinu.

Í krafti þess hafa þeir t.a.m. heimild til þess að dvelja allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili í öðru Schengen-landi en því sem þeim var veitt vernd í.

Þórhildur Ósk Hagalín
Þórhildur Ósk Hagalín

Stjórnvöld taki afstöðu þrátt fyrir endurkomubann

Enn fremur fylgir synjun í efnislegri meðferð og synjun á efnislegri meðferð umsóknar um vernd, ákvörðun um endurkomubann til Íslands sem tekur gildi ef aðilinn yfirgefur ekki landið innan veitts frests.

Fari viðkomandi innan frests fellur endurkomubannið niður. 

Einstaklingur sem kemur að landamærum Íslands og óskar eftir alþjóðlegri vernd á rétt á því að stjórnvöld taki afstöðu til umsóknarinnar jafnvel þótt viðkomandi sé í endurkomubanni til Íslands. 

Hér ber þó að taka fram að í apríl árið 2023 var gerð lagabreyting sem bar það með sér að endurteknum umsóknum beri að vísa frá nema nýjar upplýsingar komi fram um hagi viðkomandi.  

Fyrir lagabreytinguna var ferillinn sá að endurtekin umsókn var tekin til forgangsmeðferðar en alla jafna afgreidd með sama hætti og fyrri umsókn nema nýjar upplýsingar lægju fyrir málinu sem breyttu fyrri niðurstöðu.

Gluggi í lögunum 

„Það eru nokkur atriði sem geta leitt til þess að umsókn sé tekin aftur til meðferðar. Það þurfa að vera nýjar upplýsingar í málinu sem gera það að verkum að hún er tekin fyrir. Ef að einstaklingur er með vernd í Grikklandi þá er engu að síður gluggi í lögunum fyrir einstaklinga að komast í þessa efnislegu meðferð.

Hann er þröngur og það þurfa annað hvort að vera sérstakar ástæður eða sérstök tengsl sem liggja að baki. Með sérstökum tengslum er átt við að það að þú eigir til dæmis fjölskyldu á Íslandi. Það er í tiltölulega þröngum skilningi. Þannig að þú eigir nána fjölskyldumeðlimi á Íslandi. Það geta ekki verið efnahagslegar ástæður, til að mynda ef fólk hefur ekki vinnu eða húsnæði sem leiða til þess að mál eru tekin til meðferðar að nýju,“ segir Þórhildur. 

Lögregla tilkynnir um hættulega menn 

Spurð hvort Útlendingastofnun fái upplýsingar um hvort einstaklingur geti talist hættulegur við efnislega meðferð Útlendingastofnunar segir Þórhildur að lögregla tilkynni um slíkt ef ástæða þyki til við meðferð mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka