Komu tólf manns til viðbótar frá Gasa

Sjálfboðaliðarnir hafa náð að skrá 17 aðra einstaklinga á lista …
Sjálfboðaliðarnir hafa náð að skrá 17 aðra einstaklinga á lista til að komast út af gasa. AFP/Mohammed Abed

Íslenskir sjálfboðaliðar í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, náðu í dag að koma tólf einstaklingum frá Gasa yfir til Egyptalands. Allir hafa þessir einstaklingar fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar. 

Þetta seg­ir Sema Erla Ser­d­aroglu, stofn­andi Solar­is, hjálp­ar­sam­taka hæl­is­leit­enda, í sam­tali við mbl.is. 

„Það er náttúrulega kraftaverk að þessi hópur af tólf einstaklingum, sem eru fyrst og fremst særð og slösuð börn, vannærð ungbörn og eldri maður sem er mikið veikur, að þau hafi komist lifandi undan þjóðarmorðinu,“ segir Sema sem gerir ráð fyrir því að hópurinn verði kominn hingað til lands fljótlega eftir helgi. 

Undrar sig á hægagangi íslenskra stjórnvalda

Í gær og í dag skráðu sjálfboðaliðar svo sautján Palestínumenn, sem eiga fjölskyldu á Íslandi, á lista til að komast út af Gasa. Að sögn Semu eru fjórtán börn á þeim lista.

„Þannig að þetta er kraftaverk á eftir kraftaverki hjá sjálfboðaliðum sem eru í sjálfboðaliðavinnu fyrir íslenska ríkið á meðan ekkert heyrist frá íslenskum stjórnvöldum.“

Aðspurð segir hún ekkert hafa breyst hjá íslenskum stjórnvöldum síðan upplýsingar bárust um að beðið væri eftir svörum frá ísraelskum stjórnvöldum.

Þá segir Sema að í þeim fáu samtölum sem farið hafa á milli sjálfboðaliða og fulltrúa íslenska ríkisins hafi ekkert komið fram sem fái Solaris til að stöðva sína vinnu. 

Sema segir áhugavert að horfa til þess hversu vel gangi hjá íslenskum sjálfboðaliðum við að koma fólki af Gasa, samanborið við gang íslenskra stjórnvalda í sama verkefni. 

„Sérstaklega í ljósi þess að þau ættu að vera með miklu greiðara aðgengi og auðveldari leiðir til að koma fólki út af Gasa heldur en íslenskur almenningur, en virðast samt ekki fær um það.“ 

Hægst á ferlinu við landamærin

Sema segir það taka mikið á sjálfboðaliða að taka þátt í verkefninu og því séu reglulega skipti. Spurð hvort sjálfboðaliðarnir sem nú eru í Kaíró muni jafnframt taka við næstu 17 einstaklingum segir hún það enn eiga eftir að koma í ljós. 

Er það vegna þess að aðeins hefur hægst á ferlinu við landamærin og erfiðara reynst að komast að. Því gera sjálfboðaliðarnir ráð fyrir að það muni líða einhverjir dagar áður en næsti hópur kemst af Gasa.

Hún þakkar íslenskum almenning fyrir veittan stuðning og sérstaklega þeim sem hafa lagt söfnun Solaris lið. „Það er þeirra framlag sem við notum til að koma fólkinu af svæðinu og ferja það til Kaíró.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert