Síbrotamaður á fölsuðum skilríkjum

Maðurinn hlaut 20 mánaða dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu …
Maðurinn hlaut 20 mánaða dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku vegna ítrekaðra brota sinna. mbl.is/Þór

Erlendur karlmaður var í síðustu viku dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð þjófnaðarbrot, akstur undir áhrifum og skjalafals með því að hafa framvísað fölsuðum skilríkjum  þegar lögregla hafði afskipti af honum vegna aksturs undir áhrifum. Þá braut hann jafnframt gegn endurkomubanni.

Maðurinn, Siarhei Liavonau,  kom til landsins í júní árið 2022, en árið 2020 hafði verið úrskurðað um brottvísun og endurkomubann hans inn á Schengen svæðið til 2024.

Ekki er tekið fram í dóminum hvernig Liavonau komst aftur til landsins, en viku eftir að hann kom var hann handtekinn í Reykjavík fyrir akstur undir áhrifum MDMA og áfengis. Framvísaði Liavonau þá fölsuðu ökuskírteini ánöfnuðu öðrum manni, auk þess að gefa upp rangt nafn við lögreglu. Kemur fram í dóminum að með þessu hafi Liavonau leitast við að saka manninn um brot sitt.

Þjófnaðarhrina mest allt síðasta ár

Í mars í fyrra hófst svo þjófnaðarhrina sem stóð yfir fram í nóvember. Játaði Liavonau að hafa í samtals 16 skipti stolið vörum fyrir tæplega tvær milljónir á Akureyri, Akranesi og á höfuðborgarsvæðinu. Framdi hann brotin í nokkrum tilfellum í félagi með öðrum.

Í júlí þetta sama ár var hann aftur tekinn fyrir ölvunarakstur, en í þetta skiptið í Kópavogi.

Í næst síðasta þjófnaðarmálinu, í nóvember, var Liavonau gripinn við iðju sína og framvísaði þar öðru fölsuðu ökuskírteini, en ánöfnuðu sama manni og áður.

Að lokum var Liavonau tekinn í lok nóvember, sama dag og hann framdi síðasta þjófnaðarbrotið, fyrir þriðja umferðalagabrotið með því að hafa keyrt undir áhrifum áfengis í Reykjavík.

Auk 20 mánaða fangelsisdóms er manninum gert að greiða um 1,3 milljónir til nokkurra þeirra fyrirtækja sem hann stal vörum frá og 1,4 milljón í sakarkostnað.

Ekki ástæða til að skilorðsbinda dóminn

Liavonau játaði öll brot sín, eftir að saksóknari hafði fellt nokkur sakarefni niður.

Hann var árið 2022 dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brot gegn útlendingalögum og í fyrra fyrir þjófnaðarbrot á Norðurlandi. Hlaut hann tveggja mánaða dóm fyrir þjófnaðinn.Var honum því gerður hegningarauki vegna flestra brotanna.

Tekið er fram að miðað við sakaferil mannsins þyki ekki ástæða til að skilorðsbinda refsinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert