Getum ekki tekið við nema um 500

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra telur að greiningarvinna á svigrúmi Íslendinga til þess að taka við hælisleitendum muni leiða til verulegrar fækkunar þeirra. Hún segir í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins, sem birt er í dag, að ekkert liggi fyrir um fjölda eða kostnað ennþá.

„Ég held að í raun muni Ísland ekki geta tekið á móti nema kannski 500 [á ári],“ segir Guðrún, en tekur fram að sú tala sé ekki sett fram af neinni ábyrgð, heldur fremur brjóstviti.

„Við þurfum að undirbyggja þannig tölu,“ bætir hún við. „Þess vegna erum við að setja greiningarvinnu af stað til þess að við getum metið það.“ Hún bendir á að það sé ákall úr heilbrigðiskerfinu, frá kennurum, hinu félagslega kerfi og sveitarfélögum, sem ekki sé hægt að leiða hjá sér.

„Það finna vitaskuld allir fyrir því þegar á tveimur árum koma hingað níu þúsund manns í gegnum verndarkerfið.“

Til stóð að Guðrún mælti fyrir frumvarpi sínu til breytinga á útlendingalögum í gær, en miklar tafir urðu á dagskrá þingsins fram eftir kvöldi. Þegar Morgunblaðið fór í prentun var mjög óvíst að 1. umræða um frumvarpið gæti hafist.

Árleg hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins hófst í gær með fjölmennum fundi um hælisleitendamál í Reykjanesbæ, þar sem Guðrún hafði framsögu, ásamt þingmanninum Bryndísi Haraldsdóttur og Bjarna Benediktssyni, utanríkisráðherra og formanni flokksins.

Guðrún gerði grein fyrir bæði þeim breytingum, sem felast í frumvarpinu, og þeirri stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir hefðu sammælst um.

Bjarni ræddi um útlendingamálin á almennari nótum og sagði aðgerðirnar ekki aðeins eiga að markast af því að ná betri stjórn á landamærunum.

„Við verðum að gera miklu, miklu betur í því að hjálpa fólki að verða fullgildir meðlimir í samfélaginu. Geta bjargað sér, skilja tungumálið, hafa lágmarksþekkingu á menningunni og hafa áhuga á því að vera hér á forsendum okkar Íslendinga,“ sagði Bjarni og varaði við því að menn gerðu sömu mistök og átt hefðu sér stað í mörgum grannlöndum. Þar hefðu stjórnvöld ekki viljað hlusta á réttmætar áhyggjur almennings, sem svo hefði kynt undir öfgaöflum.

„Við megum ekki standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar með þeim hætti að við gröfum undan kjörum og gildum fólksins sem býr hérna fyrir. Það er bara ekki í boði.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka