„Ég stóð mjög þétt upp við girðinguna sem lögreglan hafði reist og verð síðan ekkert vör við þennan bíl fyrr en hann er ofan á löppinni minni að aftanverðu og ég finn fyrir miklum sársauka.“
Þessu lýsir Erla Sverrisdóttir aðgerðasinni, en hún segir karlmann á fyrirtækjamerktri bifreið hafa ekið á sig fyrir utan Ráðherrabústaðinn á föstudaginn.
Þar inni sat ríkisstjórnin á fundi á meðan Erla og fleiri mótmæltu aðgerðaleysi stjórnvalda við að aðstoða dvalarleyfishafa á Íslandi við að komast yfir landamæri Palestínu og Egyptalands.
Skrifstofustjóri Alþingis upplýsti í gær að herða ætti öryggisgæslu í kjölfar þess að mótmælandi, sem hélt til við Alþingishúsið, henti hlut í bifreið Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Sjónarvottur sem varð vitni að atvikinu kveður hlutinn hafa verið snjóbolta en Diljá telur að um klakastykki hafi verið að ræða. Í kjölfarið fór maðurinn að Diljá og jós yfir hana fúkyrðum, en lögreglan skarst þá í leikinn.
Erla kveðst hafa verið við það að fara að berja á trommu í mótmælaskyni þegar bílnum var keyrt aftan á fótinn á henni. Ökumaðurinn hafi stigið út úr bílnum en hafi síður en svo virst iðrast gjörða sinna og byrjað að hreyta ókvæðisorðum í mótmælendur og þá einkum að viðstöddum Palestínumönnum.
„Maðurinn kemur út úr bílnum og hreytir í okkur... og hneykslast á því sem við erum að gera og segir okkur að fara heim til okkar og endurtekur það ítrekað á ensku við Palestínufólkið sem stóð mér við hlið,“ segir Erla.
Hún segir að oftar en ekki séu um 30-40 mótmælendur fyrir framan Ráðherrabústaðinn, þegar ríkisstjórnin situr á fundi, en það hafi þó aldrei orðið til þess að einhver hafi orðið fyrir bíl.
Að sinni hafi þau aðeins verið fjögur sem stóðu við girðinguna. Engin örtröð hafi því verið á götunni og hún hafi staðið þétt uppi við girðinguna en ekki í vegi fyrir umferð.
„Þannig það er mér eiginlega bara gjörsamlega óskiljanlegt hvernig þessum manni tókst að aka á mig.“
Hún segir manninn hafa brugðist illa við er hún tjáði honum að hann hefði ekið á hana og hafi þá byrjað að hreyta fúkyrðum í mótmælendur. Hann hafi ætlað að yfirgefa svæðið en lögregla hafi ákveðið að stíga inn í og taka niður upplýsingarnar mannsins er hún áttaði sig á því hversu alvarlegir áverkar Erlu voru.
„Sem betur fer var ekkert brot en það blæddi inn á hásinina og inn á einhverja liði, bæði í ökkla og rist,“ segir Erla, spurð hvaða áverka hún hafi hlotið af ákeyrslunni.
„Maður er glaður að það fór ekki verr, það hefði örugglega getað gert það. Ég var í mjög stórum, þykkum og góðum skóm sem björguðu mér held ég vel fyrir horn.“
Í kjölfarið leitaði hún á slysadeild og kveðst Erla nú í ferli við að kæra málið. Reiknað sé með að það fari fyrir kærunefnd í næstu viku, en Erla bendir á að henni þyki það áhyggjuefni að það taki hálfan mánuð að geta lagt fram formlega kæru.
Aðspurð kveðst hún ekki þekkja manninn og að hún viti ekki hvað honum hafi gengið til. Hún geti aftur á móti ekki séð annað en að hann hafi keyrt á hana viljandi, enda nóg af plássi á götunni. Maðurinn hafi í kjölfar ákeyrslunnar síður en svo sýnt iðrun eða eftirsjá heldur í staðinn ausað fúkyrðum yfir hana og hina mótmælendurna.
Spurð hvort aðgerðasinnar, sem staðið hafa fyrir mótmælunum við Austurvöll síðan í desember, finni fyrir aukinni andúð svarar Erla játandi.
„Heldur betur, sérstaklega í garð Palestínufólksins sem er hérna, en líka okkur sem göngum um með merki málstaðarins eða fána eða erum augljóslega tengd málefninu.“
Hún segir fólk ýmist hafa veist að mótmælendum með illyrðum, hatursorðræðu og jafnvel hótunum ásamt því að rífa í fána og tjöld.
„Svo var náttúrulega mjög alvarlegt mál í upphafi mótmælanna, þá var náttúrulega ráðist á eitt tjaldið með hníf og skorið í það. Þannig það eru alveg ofbeldismál sem hafa nú þegar átt sér stað,“ segir Erla og kveðst óttast að framganga gegn Palestínufólki muni stigmagnast ef svona sé komið fram við þá sem styðja það.
„Það er áhyggjumál að það sé verið að ráðast á mótmælendur, sem eru að gera löglega hluti og sinna siðferðislegri skyldu sinni.“