Stefán Einar Stefánsson
„Það er gríðarlega hár verðmiði og fyrir mig, sem er í gríðarlega knappt fjármögnuðu umhverfi samgöngumála, svíður þessi verðmiði. Ég ætla ekkert að draga úr því.“ Þetta segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar í viðtali í Spursmálum þegar talið berst að fyrirhugaðri brú fyrir strætisvagna og hjólandi og gangandi vegfarendur yfir Fossvog.
Verðmiðinn stendur nú í 8,8 milljörðum króna en var um 5 milljarðar þegar lagt var af stað í að koma framkvæmdinni á koppinn.
Bergþóra segir hins vegar að þessi framkvæmd verði alltaf dýr, enda sé um að ræða langa og mjög breiða brú en stefnt er að því að hún verði fimm mjóar akreinar og allt að 17 metrar á breidd á meðan brúin yfir Þorskafjörð, sem nefnd hefur verið í sömu andrá, er áþekk að lengd en aðeins 10 metra breið. Sú brú kostaði rétt ríflega 2 milljarða og var tekin í notkun í október í fyrra.
„Næsta spurning er hvort við getum leyft okkur að hafa þessa brú íburðarmeiri en aðrar brýr og borga í viðbót fyrir það. Ef það er snjallt að hafa brú yfir Fossvog þá verður það alltaf stór brú og hún mun alltaf kosta, ef við ætlum að hafa hana hönnunarbrú þá kostar það meira,“ segir Bergþóra.
Hún segist þó ekkert geta sagt til um hvað framkvæmd af þessu tagi myndi kosta ef ákveðið yrði að slá af kröfum um sérstakt útlit eða íburð.
Viðtalið við Bergþóru má sjá og heyra í heild sinni hér: