Aukið hættustig: 7,6 milljónir rúmmetra af kviku

Síðast gaus 8. febrúar.
Síðast gaus 8. febrúar. mbl.is/Árni Sæberg

Veðurstofa Íslands hefur aukið hættustig sitt í uppfærðu hættumati vegna yfirvofandi eldgoss. Líkanreikningar sýna að um 7,6 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast fyrir undir Svartsengi. 

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Ef kvikusöfnun heldur áfram með sama hætti nást neðri mörk á morgun,“ segir í tilkynningunni. 

Skjálftavirkni hefur aukist örlítið um helgina og hefur mesta virknin verið rétt austan við Sýlingarfell. 

Staðsetning skjálftavirkninnar er á þeim slóðum þar sem talið er að austur endi kvikuinnskotsins undir Svartsengi liggi.

Í tilkynningunni segir að þetta sé sambærilegt þeirri skjálftavirkni sem sést hefur dagana fyrir eldgos.

Sprungur komi í ljós er snjór bráðnar

Hættustig hefur verið aukið á nokkrum svæðum á umbrotasvæðinu. Nýtt hættumat gildir til 29. febrúar að öllu óbreyttu.

Hættumatið gildir til 29. febrúar að öllu óbreyttu.
Hættumatið gildir til 29. febrúar að öllu óbreyttu. Kort/Veðurstofa Íslands

Fram kemur í tilkynningu, að auknar líkur séu á eldgosi og þar með eldgosavá því tengdu hafi áhrif á hættumatið.

„Hættustig hefur verið aukið á nokkrum svæðum. Svæði 3 – Sundhnjúkagígaröð hefur verið fært upp í mikil hætta (rautt) vegna gosopnunar án fyrirvara. Svæði 1 - Svartsengi hefur hækkað í töluvert (appelsínugult) vegna mögulegs hraunflæðis. Svæði 4 - Grindavík er áfram appelsínugult en hins vegar er aukin hætta innan þess svæðis vegna mögulegs hraunflæðis.“

Þá segir í tilkynningunni að engar verulegar landbreytingar sjást innan Grindavíkur á GPS eða gervihnattagögnum.

Líklegt er þó að nýjar sprungur komi í ljós á yfirborði þegar snjór bráðnar eða þegar jarðvegur hreyfist vegna úrkomu og fellur ofan í sprungur sem þegar hafa myndast.

Innan við 30 mínútur

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

„Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp til yfirborðs, koma fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti eldgos hafist með litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúkagígaröðinni kvika kemur upp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert