Íslandsdeild Amnesty International lýsir yfir alvarlegum áhyggjum vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands að frysta fjármögnun til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, og hvetur stjórnina til að hverfa án tafar frá þessari ákvörðun sinni.
„Amnesty International viðurkennir alvarleika ásakana sem ísraelska ríkisstjórnin setti fram á hendur 12 af 30.000 starfsmönnum UNRWA um þátttöku þeirra í brotum á alþjóðalögum, þar á meðal stríðsglæpum, gegn ísraelskum borgurum þann 7. október. Engu að síður hafa samtökin rannsakað sex blaðsíðna skjal sem inniheldur þær ásakanir sem Ísrael hefur lagt fram um málið og komust samtökin að þeirri niðurstöðu að þar eru engin sönnunargögn sem benda til þess að UNRWA beri ábyrgð á þeim sökum sem bornar hafa verið á hendur umræddum starfsmönnum. Reynast umræddar sakir á rökum reistar tengjast þær ekki á starfssviði þeirra hjá UNRWA,“ segir í tilkynningu Amnesty um málið.
Benda samtökin á að fram til þessa hafi engum trúverðugum rannsóknum á ásökununum verið lokið. Hins vegar hafi Ísraelsríki um árabil haft uppi ófrægingarherferð gegn UNRWA í því augnamiði að auðvelda nauðungarflutninga palestínskra íbúa hernumdu svæðanna auk þess að grafa undan rétti milljóna palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til síns heima.
„Ísraelsk stjórnvöld og vilhallir hópar gagnrýndu UNRWA áður en ásakanirnar gegn starfsmönnum UNRWA komu fram og sú gagnrýni heldur áfram að aukast. Þessir aðilar og hluti ísraelskra stjórnvalda hafa einnig dreift hatursfullri orðræðu gegn Palestínubúum með því að halda því fram að UNRWA innræti börn þannig að þau hneigist til „hryðjuverka“,“ segir þá í tilkynningunni.
Frysting fjármögnunarinnar auki á þjáningar rúmlega tveggja milljóna palestínskra flóttamanna sem skráðir séu flóttamenn hjá UNRWA og kalli Íslandsdeild Amnesty International því eftir tryggingu fjárhagsstuðnings við UNRWA án tafar í ljósi hættu á hópmorði Palestínubúa á Gasa og því að íslensk stjórnvöld fordæmi auk þess opinberlega áform ísraelskra stjórnvalda um nauðungarflutninga palestínskra íbúa á Gasa og staðfesti rétt þeirra til að snúa aftur til síns heima.