Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bæta við sig

Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bæta við sig fylgi.
Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bæta við sig fylgi. Samsett mynd

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bæta við sig fylgi á milli mánaða samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Miðflokkurinn mælist áfram þriðji stærsti flokkur landsins.

Samfylkingin mælist áfram stærsti flokkurinn, en hann mælist nú með 27,2% fylgi. Fyrir mánuði síðan mældist Samfylkingin með 25,7% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn bætir einnig við sig fylgi og mælist nú með 18,4% fylgi, en hann mældist með 16,6% fylgi fyrir mánuði síðan.

Báðir þessir flokkar hafa verið mikið í deiglunni síðasta mánuð vegna útlendingamála, þá ekki síst Samfylkingin vegna orða Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, um málaflokkinn.

Vinstri græn með tæplega 6% fylgi

Miðflokkurinn mælist með 11,1%, Viðreisn og Píratar með um 9% og Framsókn með 8,5%. Framsókn mældist með 10,3% fylgi fyrir mánuði síðan.

Flokkur fólksins mælist með 6,4% fylgi og Vinstri græn með 5,9% fylgi. Ríkisstjórnin mælist með 32,8% stuðning.

Könnun fór fram dagana 7. til 27. Febrúar og 1706 svarendur tóku afstöðu til flokks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert