Atvikið sem átti sér stað á Reykjanesbrautinni í gær, þegar ökumaður keyrði rútu á móti umferð á öfugum vegarhelmingi, er litið alvarlegum augum af lögreglunni.
Þetta segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Hann segir að lögreglan verði með atvikið til skoðunar og að það verði stofnað mál í kringum þetta.
„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt. Þetta setur fjölda vegfarenda í stórkostlega hættu með þessum hætti. Maður náttúrulega skilur ekki hvernig í ósköpunum – eða hvað verður þess valdandi að hann fer bara yfir á öfugan vegarhelming. Þetta er algjörlega með ólíkindum,“ segir Sævar.