Reykjavíkurborg hyggst sækja um rúmlega 15 milljarð króna lán til Þróunarbanka Evrópuráðsins til að fjármagna viðhaldsátak á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í borginni.
Það var borgarráð sem samþykkti í dag að heimila borgarstjóra að sækja um lánið til að fylgja eftir áætlun sem upprunalega var lögð fram þann 4. nóvember árið 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Um er að ræða lán að fjárhæð 100 milljónum evra sem í íslenskum krónum nemur um 15 milljörðum króna eða um 50% af þeirri áætlun sem lá fyrir við upphaf verkefnisins.
Um er að ræða umfangsmikið viðhaldsátak á skólahúsnæði borgarinnar og er gert ráð fyrir að það muni ná yfir næstu fimm árin, eða samkvæmt fjárhagsáætlun til ársins 2028.
Í dag samþykkti borgarráð jafnframt heimild til fjármála- og áhættustýringarsviðs um að leita tilboða og samþykkja tilboð í umsjón með útgáfu á nýjum óverðtryggðum skuldabréfaflokki til skemmri tíma, eða þriggja til fimm ára.
Útgáfa á nýjum stuttum skuldabréfaflokki yrði innan samþykktar lántökuáætlunar fyrir árið 2024 og fjárhæð útgáfunnar allt að 3 milljarðar króna.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að tilgangurinn sé að auka úrval fjárfestingakosta á skuldabréfamarkaði og ná til breiðari hóps fjárfesta, en megnið af útgefnum skuldabréfum borgarinnar eru til langs tíma.
Til viðbótar var fjármála- og áhættustýringarsviði veitt heimild til að leita samhliða tilboða í mögulega umsjón, ráðgjöf og útgáfu á nýjum löngum verðtryggðum skuldabréfaflokki.
Tilgangur útgáfunnar væri að fjölga valkostum í fjármögnun og lánastýringu en hefðbundnir verðtryggðir skuldabréfaflokkar Reykjavíkurborgar og jafnframt þeir stærstu eru með lokagjalddaga árið 2032 og 2053.
Gert er ráð fyrir að markaðsaðilum verði boðið að senda tilboð í umsjón með ofangreindu og að samið verði við einn eða fleiri aðila um ráðgjöf og umsjón með útgáfu og sölu.