Stjórn Landsvirkjunar leggur til að greiddur verði 20 milljarða króna arður til ríkisins á þessu ári, sem er sama fjárhæð og greidd var í fyrra. Nemur fjárhæðin um 72% af hagnaði ársins 2023. Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi stjórnarinnar í gær.
Í tilkynningu frá Landsvirkjun er haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra fyrirtækisins að síðasta ár hafi verið besta rekstrarár í sögunni. Hagnaður af grunnrekstri hafi numið 375 milljónum bandaríkjadala og skuldir lækkað um 151 milljón dala.
„Þessi árangur náðist þrátt fyrir að tekjur af sölu til stórnotenda drægjust saman vegna verðlækkana á mörkuðum, en heildarrekstrartekjur jukust verulega, einkum vegna áhættuvarna. Þannig hefur virk áhættustýring í rekstri Landsvirkjunar sannað gildi sitt, en hún dregur úr tekjusveiflum og stuðlar að stöðugri rekstrarafkomu fyrirtækisins. Rekstrar- og viðhaldskostnaður hækkaði eingöngu um 4% á milli ára,“ segir Hörður.
Hörður segir og að hagnaður af grunnrekstri fyrirtækisins hafi numið 52 millljörðum króna á sl. ári og hagnaður fyrirtækisins hafi aldrei verið meiri. Hagnaðurinn hafi aukist um 19% frá árinu 2022 sem þó hafi verið metár og fárhagsstaða fyrirtækisins hafi aldrei verið betri. Eiginfjárhlutfall í lok sl. árs hafi verið 65,4% og aukist úr 59,3% frá fyrra ári.
Hörður segir að þó séu blikur á lofti í raforkumálum. „Framkvæmdir við orkuöflun hafa tafist af ýmsum orsökum og líkur eru á því að raforkuframleiðsla nái ekki að anna eftirspurn vegna orkuskipta og almenns vaxtar samfélagsins fyrr en í fyrsta lagi á árunum 2027-28,“ segir hann.