Færri skjálftar og líkur á eldgosi minnka

Líkur á eldgosi fara þverrandi.
Líkur á eldgosi fara þverrandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á þriðja tug jarðskjálfta hafa mælst við Sundhnúkagígaröðina síðustu klukkustundina. Verulega hefur dregið úr krafti skjálftahrinunnar en til samanburðar mældust um 130 skjálftar á milli klukkan 16 og 17 í dag þegar hrinan stóð sem hæst.

Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Líkur á að eldgos komi upp í kvöld fara dvínandi og virðist atburðurinn, sem hófst um klukkan 16 í dag, vera að lognast út af. Honum er þó ekki lokið.

Bíða gagna frá GPS-mælum

Spurð út í stöðuna á landrisi, eða landsigi, í Svartsengi, segir Salóme enn of snemmt að segja til um stöðuna þar. GPS-gögn hafi ekki borist eftir kvikuhlaupið. Slíkar upplýsingar gætu sagt til um kvikumagnið sem fór úr kvikuhólfinu undir Svartsengi. 

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að lítil aflögun hefði komið fram á mælum þegar kvikuhlaupið hófst sem gæfi til kynna að minna magn kviku hefði hlaupið heldur en í fyrri atburðum sem leiddu til eldgosa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert