72 dvalarleyfishafar á leið frá Gasa til Íslands

Palestínskur maður heldur á pokum með neyðaraðstoð á Gasasvæðinu.
Palestínskur maður heldur á pokum með neyðaraðstoð á Gasasvæðinu. AFP

72 einstaklingar frá Gasasvæðinu, með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, komu til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, seint í gærkvöldi. Þeir halda í kjölfarið til Íslands eftir að ísraelsk stjórnvöld afgreiddu fyrirliggjandi nafnalista um helgina.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra átti símafund með Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, síðastliðinn þriðjudag til að greiða fyrir afgreiðslu málsins, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Sendinefnd utanríkisráðuneytisins hefur undanfarnar vikur unnið að því að greiða fyrir för fólksins og átt í virkum samskiptum við fulltrúa egypskra og ísraelskra stjórnvalda, auk fulltrúa annarra ríkja á svæðinu. Sú vinna hefur nú borið tilætlaðan árangur,” segir í tilkynningunni.

„Í þessum samskiptum kom fram að listi Íslands væri einstakur þar sem þar eru einungis dvalarleyfishafar, en engir íslenskir ríkisborgarar. Önnur ríki hafa þannig í mestum mæli veitt eigin ríkisborgurum og fjölskyldum þeirra liðsinni í þessum efnum.”

Frá borginni Rafah á Gasasvæðinu.
Frá borginni Rafah á Gasasvæðinu. AFP/Eyad Baba

Í tilkynningunni kemur fram að framgangur málsins hafi því verið háður afgreiðsluhraða og afstöðu stjórnvalda á svæðinu. Sendinefnd Íslands geti aðeins starfað eftir þeim löglegu diplómatísku ferlum sem ísraelsk og egypsk stjórnvöld hafa sett um framkvæmd slíkra mála.

Þegar einstaklingar fái dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar sé það á þeirra ábyrgð að komast til Íslands fyrir eigin rammleik. Engin almenn skylda hvíli þannig á íslenskum stjórnvöldum til að greiða för þeirra. Í ljósi þeirra einstöku aðstæðna sem uppi eru á svæðinu hafi þó verið ákveðið að leggja í sérstakt verkefni hvað þetta varðar.

„Við munum nú leggja okkur fram við að taka vel á móti þessum einstaklingum, sem hafa lifað hörmungar að undanförnu,“ segir Bjarni í tilkynningunni.

„Heildarsýn stjórnvalda í útlendingamálum var kynnt nýlega, en þær breytingar skipta ekki síst máli til að tryggja að þessi fordæmalausa aðgerð skapi ekki umframþrýsting á íslensk kerfi.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Árni Sæberg

Vinnumálastofnun vinnur að móttöku fólksins

Vinnumálastofnun vinnur að móttöku fólksins hér á landi í samráði við þau sveitarfélög þar sem fjölskylda þeirra hér á landi býr.

Flestir dvalarleyfishafar frá Gasasvæðinu ganga inn í svokallaða samræmda móttöku flóttafólks í því sveitarfélagi þar sem fjölskyldumeðlimir þeirra hér á landi eiga heima, að því er kemur fram í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

„Margt fólk hefur lagt á sig ómælda vinnu við að koma dvalarleyfishöfum í öruggt skjól á Íslandi og á miklar þakkir skildar. Ég fagna því innilega að fólkið sé nú á leið til landsins og sameinist hér fjölskyldum sínum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í tilkynningunni.

„Ég fundaði í dag með fulltrúum IOM þar sem við ræddum aðkomu stofnunarinnar að þessu máli og samstarf íslenskra stjórnvalda við hana. Ég kom á framfæri þökkum til þeirra fyrir frábært samstarf við erfiðar aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert