„Maður er laminn í klessu andlega“

Malín Brand segir að langbest væri „ef við gætum drattast …
Malín Brand segir að langbest væri „ef við gætum drattast til að taka Norðmenn til fyrirmyndar þarna“ og vísar til dómsins sem féll í Ósló í gær. Hún rifjar upp þegar hún var neydd til að stunda trúboð sem barn og sætti þá hótunum frá hvorum tveggju, vottunum og þeim sem hún heimsótti. Ljósmynd/Teitur Jónasson

„Það væri náttúrulega langbest ef við gætum drattast til að taka Norðmenn til fyrirmyndar þarna,“ segir Malín Brand, blaðamaður og þýðandi, í samtali við mbl.is um dóm Héraðsdóms Óslóar í gær í máli Votta Jehóva gegn norska ríkinu sem var sýknað af kröfu þeirra um að fá greidda ríkisstyrki fyrir árin 2021 til 2023 og fá skráningu sem trúfélag á ný.

Malín, sem margoft hefur rætt við fjölmiðla um uppvöxt sinn innan Votta Jehóva og þá meðferð sem hún sætti þar sem barn og unglingur, kveðst ánægð með norska dóminn. „Nú er ég ekki viss um hvernig nýja löggjöfin [um trúfélög] er í Noregi, en mér finnst svo merkilegt að í okkar þjóðfélagi þykir eðlilegt að mölva styttur af mönnum sem farið hafa illa með börn í gegnum tíðina,“ segir Malín.

Beinlínis greitt fyrir heilaþvott

Þegar komi að andlegu ofbeldi gagnvart börnum virðist hins vegar annað uppi á teningnum, „og bara horft í hina áttina og vonum bara það besta. Bara eins og að hækka í útvarpinu í bílnum til að heyra ekki að hjólalegan er að gefa sig,“ segir hún enn fremur.

„Hvers vegna fær sértrúarsöfnuður, eða „cult“, sem um allan heim er þekktur fyrir ógeðslegt andlegt ofbeldi og kynferðisbrot gegn börnum, beinlínis greitt fyrir að halda sínum mannskemmandi háttum, dómsdagsbulli og öskrandi heilaþvotti áfram?“ spyr Malín og notar þar hugtakið sértrúarsöfnuður sem varð tilefni dómsmáls á Spáni í fyrra.

Dómari í Madrid hafnaði í desember bótakröfu Votta Jehóva á hendur Samtökum fórnarlamba Votta Jehóva en trúfélagið krafðist bóta úr hendi samtakanna auk þess að þeim yrði bannað að kalla sig fórnarlömb og að tala um Votta Jehóva sem sértrúarsöfnuð þar sem orðanotkunin væri meiðandi í garð trúfélagsins.

Voru fórnarlambasamtökin sýknuð af kröfum trúfélagsins, meðal annars með þeim rökstuðningi Raquel Chacon dómara að Vottar Jehóva teldust „secta destructiva“ eða „eyðileggjandi sértrúarsöfnuður“.

Úti á götu með bláar hendur

Malín heldur áfram og segir það hæpið að fjöldi fólks hafi tekið sig saman um að segja sömu söguna þegar kemur að því að segja frá því sem á daga þess hafi drifið innan trúfélagsins en frá því greindi einmitt fjöldi vitna fyrir Héraðsdómi Óslóar við aðalmeðferð máls Votta Jehóva gegn norska ríkinu í janúar.

„Maður er býsna ungur þegar sú krafa er gerð að maður fari að ganga á milli húsa og banka á hurðir,“ rifjar Malín upp, spurð út í minningar sínar um veruna í Vottum Jehóva á Íslandi sem hún yfirgaf árið 2004, þá á 23. aldursári. Segir Malín þar af trúboðinu sem Vottar Jehóva eru líklega þekktastir fyrir í augum almennings.

„Í raun og veru er bara sagt við þig „ef þú gerir ekki það sem er rétt munt þú deyja á dómsdegi“, það er rauði þráðurinn í þessum fagnaðarboðskap þeirra. Ég man eftir mér úti á götu með bláar hendur og það ekki af því að ég væri svo mikil sjálfstæðismanneskja,“ segir Malín glettnislega og rifjar upp þvingað trúboð sitt á vegum Votta Jehóva.

„Reyndi að draga mig inn í íbúð“

„Það sem er verið að pína mann til að gera er að fara á milli húsa og tala við ókunnugt fólk sem er ógeðslega erfitt, sérstaklega fyrir þá sem eru kannski svolítið einhverfir eins og ég,“ segir Malín. „Maður er laminn í klessu andlega heima hjá sér og píndur til að fara þarna og tala við alls konar fólk,“ segir Malín sem sætti hótunum úr báðum áttum – einnig frá móttakendum trúboðsins, þaðan sem henni bárust hótanir sem meðal annars gengu út á að skjóta hana eða meiða á annan hátt.

„Ég er enn hrædd við mann sem reyndi að draga mig inn í íbúð þar sem var hópur af körlum. Ég var sautján ára þá og hann reyndi bara að draga mig inn,“ segir Malín frá og kveðst eiga erfitt með að skilja að Vottar Jehóva fái að vera skráð trúfélag á Íslandi.

„Eitt var viðhorfið gagnvart okkur sem vorum „baneitruð“, það er að segja útskúfuð, en verst var að vita af glæpum gegn börnum og bíða eftir því að Jehóva, þessi gaur sem ég hef aldrei hitt, myndi bara redda öllu. Ég trúði ekki á hann en ég trúði að maður ætti að segja frá og fara þessa leið í kerfinu, ekki bara þagga niður og senda hryllinginn til næsta lands,“ segir Malín sem átján ára gömul giftist innan safnaðarins. Því hjónabandi lauk síðar.

„Ég fór í háskólann en vottarnir eru svolítið á móti því að maður afli sér menntunar, ég var eiginlega bara skömmuð fyrir það, mamma tók bækurnar bara og fór með þær aftur á bókasafnið. Mér fannst það mjög leiðinlegt því það var eins og verið væri að banna mér að hugsa,“ segir Malín Brand að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert