Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir það einstaklega gleðilegar fréttir að 72 einstaklingar frá Gasasvæðinu, með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, skulu vera á leiðinni til Íslands og hann vonar að fleiri komi til landsins.
„Þetta fólk fær nú tækifæri til að sameinast fjölskyldum sínum hér á Íslandi sem er afar gleðilegt en það er komið fólk nú þegar sem hefur komið með öðrum leiðum,“ segir Guðmundur Ingi við mbl.is.
Guðmundur segir að verið sé að tryggja það með Vinnumálastofnun, sveitarfélögum, heilsugæslunni, barnaspítalanum og Rauða krossinum að taka eins vel á móti fólkinu og frekast sé unnt.
Hvar fær þetta fólk húsnæði og í hvaða sveitarfélögum?
„Þetta eru ýmis sveitarfélög sem koma að málum. Flest af þessu fólki kemur til Reykjavíkur því flestir aðstandendur þessa fólks eru í Reykjavík. Við munum aðstoða sveitarfélögin við það verkefni að finna húsnæði og ganga frá þeim málum.“
Hann segir að sálrænn stuðningur við þennan hóp sem er að koma úr skelfilegum aðstæðum sé mjög mikilvægur og þess vegna séu stjórnvöld í sambandi við Rauða krossinn sem sé tilbúinn til að taka þetta hlutverk að sér.
„Við róum að því öllum árum að geta tekið vel á móti þessu fólki en það er líka mjög stór hópur fólks sem stendur að baki því að koma þessum hópi til landsins,“ segir Guðmundur.
Aðspurður hvaða fólk það sé segir hann: „Það er meðal annars fólk úr utanríkisráðuneytinu þar sem hefur verið sendinefnd við landamærin og fólk frá Vinnumálastofnun sem hefur verið í tengslum við alþjóða fólksflutningastofnunina.“
Komu sjálfboðaliðarnir sem hafa verið úti í Kaíró eitthvað að málunum?
„Ekki af þeim sem eru að koma í gegnum þessa diplómatísku leiðir en við vitum að á vegum sjálfboðaliðanna er hluti af fólki komið til landsins og það verður tekið á móti því með sama hætti og þeim sem koma fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda.“
Eru stjórnvöld að greiða fé fyrir að koma fólkinu til landsins?
„Nei þetta er allt eftir diplómatískum leiðum og utanríkisráðuneytið hefur staðið sig vel í að greiða leið fólks yfir landamærin. Við hjálpum því svo til landsins.“
Guðmundur Ingi segir að meirihluti þeirra 72 sem eru á leið til landsins séu konur og börn. Hann segir fólkið komi til landsins á næstu dögum.
„Ég er ekki viss um að allur hópurinn komi saman í einu. En þessir 72 eru komnir yfir landamærin og það fyrsta sem alþjóða fólksflutningastofnunin, sem félagsmálaráðuneytið er með samning við, gerir er að senda fólk í heilbrigðisskoðun til þess að sjá hvort það fært til þess að fljúga og síðan eru fundin flug fyrir þetta fólk eins fljótt og kostur er á.“
Er búið að kanna bakrunn þessa fólks?
„Það fer fram á landamærunum og er ekki eitthvað sem íslensk stjórnvöld gera heldur er það í höndum ísraelskra stjórnvalda.“
Spurður hvort von sé á fleiri einstaklingum frá Gasa til landsins segir Guðmundur Ingi:
„Ég vona það. Við viljum aðstoða þau öll sem hafa fengið fjölskyldusameiningu að koma til landsins.“