Sigrúnu Skaftadóttur, plötusnúð hjá Kanilsnældum og fyrrverandi samfylkingarkonu, er svo misboðið yfir útlendingahatri sem „svífur yfir vötnum og virðist vera orðið alltof normaliserað þessa dagana“ að hún hefur sagt sig úr Samfylkingunni.
Frá þessu greinir Sigrún í færslu á Facebook-síðu sinni en hún hefur að eigin sögn verið félagi í flokknum síðan hún var átján ára gömul „og alltaf getað speglað mig og mínar skoðanir í flokknum“, skrifar hún enn fremur.
„En því miður eigum við ekki samleið lengur. Ég kveð flokkin[n] með trega og vona að þau finni aftur mannréttinda hjartað sem sló svo fallega,“ skrifar Sigrún.
Kveðst hún alltaf verða jafnaðarmanneskja („social democrati“ eins og hún skrifar) en hún túlki hugtakið ólíkt þeim sem leiða flokkinn. „Ég trúi á opið og fallegt samfélag þar sem fjöbreytileikanum er fagnað óháð kyni og uppruna,“ skrifar Sigrún Skaftadóttir að lokum.