Mótmælendur reyndu að veitast að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra eftir ávarp hans á viðburði í Veröld – húsi Vigdísar á vegum Háskóla Íslands rétt fyrir hádegi í dag. Rúv greindi fyrst frá.
Þrjár konur hlupu með fána Palestínu í átt að Bjarna en lögregla afstýrði því að meira yrði úr málinu, að því er Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður hans, staðfestir við mbl.is.
„Það má hrósa lögreglu fyrir fumlaus viðbrögð, sem afstýrðu því að meira yrði úr málinu,“ segir Hersir.
Konurnar voru ekki handteknar í kjölfar atviksins en málið er í skoðun, að sögn Helenu Rósar Sturludóttur, samskiptastjóra Ríkislögreglustjóra.
Utanríkisráðherra hefur notið öryggisgæslu ríkislögreglustjóra síðan kastað var glimmeri yfir hann í sama húsnæði háskólans í desember síðastliðnum.
Atvikið varð á málþingi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sendiráðs Litháens, þar sem lýðræðisbarátta í Austur-Evrópu var til umræðu.
Uppfært klukkan 16.48: Fréttin hefur verið uppfærð með ummælum Helenu Rósar Sturludóttur, samskiptastjóra Ríkislögreglustjóra.