Með því að byggja upp leiðakerfi fyrir bátastrætó á höfuðborgarsvæðinu mætti stytta ferðatíma verulega og bjóða um leið upp á nýja afþreyingu fyrir heimamenn og ferðamenn.
Pálmar Harðarson, eigandi Þingvangs, bendir á þetta, en hann hefur falið arkitekt að gera frumdrög að slíku leiðakerfi sem eru endurbirt á meðfylgjandi grafi. Kallar hann eftir viðbrögðum skipulagsyfirvalda sem geti unnið hugmyndirnar frekar.
Syðsta stöðin yrði við Hafnarfjarðarhöfn og yrði næsti viðkomustaður á norðanverðu Álftanesi. Þaðan væri siglt í Sjálandshverfið og sér Pálmar þar fyrir sér tvær stöðvar, aðra við Sjálandshverfið vestanvert og hina við veitinga- og samkomuhúsið Sjáland sem eigendur World Class hyggjast breyta í líkamsrækt og veitingastað.
Frá Sjálandi yrði siglt í Kársnesið og eins og í Sjálandshverfinu sér Pálmar fyrir sér tvær stöðvar, aðra við Kársneshöfn og hina við aðstöðu siglingaklúbbsins á norðanverðu Kársnesi. Frá Kársnesi yrði siglt í Nauthólsvík og svo til Skerjafjarðar. Þaðan liggur leiðin á Seltjarnarnes, svo til Reykjavíkurhafnar og loks yrði endastöðin við Gufunes.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.