Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM kveðst sáttur með kjarasamning sem fagfélögin skrifuðu undir við Samtök atvinnulífsins í dag.
Hann segir að erfitt sé að biðja um stórar breytingar þegar keimlíkur samningur hafi verið undirritaður fyrir stuttu.
Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís, VM og Grafía skrifuðu undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins í dag í anda samnings SA og breiðfylkingarinnar sem undirritaður var á fimmtudaginn.
„Þegar menn skrifa undir svona keimlíka samninga að þá veistu það að þegar það er búið að loka einum að þú færð engar stórar breytingar,“ segir Guðmundur Helgi í samtali við mbl.is.
„Ég held að markmiðið sem við fórum af stað með í upphafi að við ætlum að gera atlögu að því að ná niður verðbólgu og stýrivöxtum og leggja okkar á vogaskálarnar, ég held að það sé alveg að takast hjá okkur.“
Var almenn sátt á milli samningsaðila?
„Já mér finnst það oft hafa verið súrara þegar menn skrifa undir. Við vitum það ef að þetta tekst að þá er ávinningur okkar alltaf mestur í að ná niður þessari verðbólgu,“ segir Guðmundur.
Hann segir að þetta eigi sérstaklega við fyrir fólk sem er að kaupa íbúðir og skuldar. Miklu meiri ávinningur sé í að ná niður verðbólgu en hægt væri að ná í krónum og aurum talið.
Guðmundur segir að aðkoma stjórnvalda til þess að styðja við markmið kjarasamninganna sé ásættanleg og vonast hann til þess að hún muni koma til með að hjálpa þeim sem verst standa.
Hins vegar hafi fagfélögin alltaf verið samþykk því að verkamannafélögin þyrftu að fá aðeins meira vegna stöðu þeirra í þjóðfélaginu.
„Við eigum að skammast okkur svolítið fyrir að reka þjóðfélag þar sem að lægstu taxtar eru fyrir neðan framfærslu,“ segir Guðmundur Helgi að lokum.