Frumvarp sem myndi auka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða, þannig að þeir gætu fjárfest í félögum sem eru ekki skráð á markað og leigja út íbúðarhúsnæði, er komið í Samráðsgátt.
Taki lögin gildi mun framboð íbúðarhúsnæðis aukast.
Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi á föstudag.
Hún segir að þessar breytingar muni einfalda fjárfestingarumhverfið í óskráðum félögum sem leigja út íbúðir og nefnir hún sem dæmi kaupin á Heimstaden.
„Þessum auknu heimildum hefur verið mjög vel tekið af markaðnum og við sjáum það í þessum viðskiptum með Heimstaden, að þar hafði það áhrif,“ segir Þórdís.
Á fimmtudag greindi mbl.is frá því að sjóður í eigu íslenskra lífeyrissjóða og í stýringu Stefnis hefði keypt leigufélagið Heimstaden á Íslandi sem er með 1.600 íbúðir á leigumarkaði.
„Í rauninni eru þessi áform þegar farin að hafa jákvæð áhrif á markaðinn. Hér er um að ræða aðgerð sem felur í sér auknar heimildir og aukið frelsi, er enginn kostnaður fyrir ríkissjóð en mun hafa mjög jákvæð áhrif á húsnæðismarkað.“
Hvernig þá?
„Í ljósi þess að lífeyrissjóðir munu fjárfesta og auka framboð á íbúðarhúsnæði. Þannig að þetta er mjög jákvætt skref sem ég vona að verði samstaða um.“
Hugmyndin var upphaflega kynnt sem hluti af kjarapakka stjórnvalda árið 2022 og gerir Þórdís ráð fyrir því að frumvarpið verði afgreitt í vor.
Í Samráðsgátt segir um frumvarpið:
„Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að lífeyrissjóðum verði heimilt að binda tiltekið hlutfall eignasafns síns í ákveðnum óskráðum fjármálagerningum útgefnum af fyrirtækjum sem hafa það að meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til einstaklinga til langs tíma. Jafnframt er í frumvarpinu að finna tillögu um að hverjum og einum lífeyrissjóði verði heimilað að eiga stærri hlut en 20% í leigufélögum með íbúðarhúsnæði í langtímaleigu til einstaklinga.
Er það gert til að liðka fyrir þeim fjárfestingum sem frumvarpið mælir fyrir um en núgildandi heimild laganna kveður á um að hverjum sjóði sé ekki heimilt að eiga meira en 20% hlut í þeim félögum sem frumvarpið tekur til.“
Hægt er að senda inn umsögn um frumvarpið til 14. mars.