Aukið magn svifryks í borginni

Líklegt að styrkur svifryks fari hækkandi í tengslum við eftirmiðdagsumferðina.
Líklegt að styrkur svifryks fari hækkandi í tengslum við eftirmiðdagsumferðina. mbl.is/Auðun

Styrkur svifryks var hár á nokkrum mælistöðvum í Reykjavík í morgunumferðinni í hægviðrinu sem hefur verið ríkjandi í dag og búast má við því að hann mælist hár í eftirmiðdagsumferðinni.

Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að klukkan 10 í morgun hafi klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 184 míkrógrömm á rúmmetra og 101,2 míkrógrömm á rúmmetra við Vesturbæjarlaug. Klukkan 9 var styrkurinn 77 míkrógrömm á rúmmetra við leikskólann Lund.

Svipað veður næstu daga

Þar sem er hægur vindur, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu í dag er líklegt að styrkur svifryks fari hækkandi í tengslum við eftirmiðdagsumferðina. Gert er ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því líkur á að styrkur svifryks verði áfram hár og þjóðvegir í þéttbýli og helstu stofngötur verða því rykbundnar í nótt til að draga úr uppþyrlun.

Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin en heilsuverndarmörk miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring fyrir PM 10 (svifagnir um 10 míkrógrömm að stærð). Helsti uppruni svifryks er uppspænt malbik, sót aðallega frá díselbruna, jarðvegsagnir, salt, aska o.fl.

Hvatt til að draga úr notkun einkabílsins

Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, s.s. geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.

Þá er skorað er á fyrirtæki að hvetja starfsfólk til að vinna fjarvinnu sé þess kostur og draga úr akstri ef hægt er. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert