Það er mikið fagnaðarefni að það hafi náðst langtímakjarasamningar en það er þó með ólíkindum að ríkisstjórnin viti ekki hvernig eigi að fjármagna 80 milljarða króna aðgerðapakka stjórnvalda.
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is.
Hún bendir á að það hafi legið fyrir í nokkra mánuði að stjórnvöld myndu stíga inn í kjarasamninga. Því hafi það verið ótrúlegt að horfa á blaðamannafund ríkisstjórnarinnar þar sem hvergi lá fyrir hvernig 20 milljarðar aukalega í útgjöld á ári yrði fjármagnað.
„Ég hef bent á það áður að þessi ríkisstjórn, ef hún ætlar að fara sýna aðhald í ríkisrekstri, þá er hún ekki trúverðug í því. Hún hefur enga afrekaskrá í þeim efnum í öll þessi sjö ár. Miklu heldur höfum við horft á ríkisbáknið þenjast út, þannig að hún kann ekkert fyrir sér í þeim efnum,“ segir Þorgerður.
Hún segir að það yrði glapræði að taka erlend lán til að fjármagna útgjaldapakka stjórnvalda enda myndi það hafa neikvæð áhrif á verðbólgu.
„Eða ætlar hún að hækka skatta og gjöld? Þá verður hún að segja það skýrt. Hún er búin að hafa mánuði til að undirbúa sig og ég hélt að eitthvað sem hún væri búin að læra var það að hún kynni að halda blaðamannafundi, sem hafa verið ótal margir. En hún svarar engum spurningum í þessu.“
Hún spyr svo hvert efnahagsstjórnin landinu sé komin þegar að Samtök atvinnulífsins eru farin að tjá sig um það hvernig þessar aðgerðir ættu að vera fjármagnaðar af hálfu stjórnvalda. Hún segir þessi útgjöld vera stórmál og því þurfi ríkisstjórnin að tala skýrar.
„Þetta er bara kostnaður, 80 milljarðar, sem að hluta til felur í sér að halda uppi þessari ríkisstjórn og um leið viðurkenning á hennar hagstjórnar mistökum undanfarin ár. Eðlilega þarf að taka utan um viðkvæman hóp eins og þann sem hefur átt í miklum húsnæðiserfiðleikum, en ríkisstjórnin hefur ekki umboð til annars heldur en að svara því hvernig hún fjármagnar þetta,“ segir Þorgerður.
Hún segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi verið mjög óljós í sínum málflutningi sem og ríkisstjórnin í heild. mbl.is tók viðtal fyrir helgi við Þórdísi þar sem spurt var hvernig þetta yrði fjármagnað og lá það ekki fyrir á þeim tímapunkti.
„En það er alveg ljóst að mínu mati að Vinstri græn eru búin að ná sæmilegri bóndabeygju á Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að ríkisfjármálum,“ segir Þorgerður og bætir við að Viðreisn hafi varað við þenslu ríkissjóðs á öllum sviðum frá árinu 2019.
Aðspurð segir hún að Viðreisn hafi í gegnum árin komið ítrekað með tillögur um hagræðingu í ríkisrekstri. Þar nefnir hún sem dæmi að Viðreisn hafi lagt til að greiða niður skuldir þegar hluti af Íslandsbanka var seldur, fara eftir ábendingum frá OECD og fleira.
„Einfaldasta tillagan er náttúrulega bara að fækka ráðherrum og hafa þá 10 eða 11 eins og þetta var í upphafi þessarar stjórnar,“ segir hún og segir að það myndi senda skýr skilaboð til almennings um að ríkisstjórninni væri raunverulega annt um að ná tökum á ríkisútgjöldunum.
„En þau sem hafa stjórntækin og hafa allt embættismannakerfið með sér, hafa allar þessar stóru flokksskrifstofur með sér, eru ekki tilbúin með þá útfærslu sem við þurfum að heyra hvernig á borga 80 milljarða. Það er ekki verið að stjórna þessu landi.“
Hún ítrekar að það séu gríðarleg verðmæti fólgin í langtímasamningum. Hún segir hins vegar að til þess að byggja undir trúverðugleika þá verði að fylgja sögunni hvernig stjórnvöld ætli sér að fjármagna loforð sín.
„Ef að við gerum það ekki þá er hætt við því að þau bök sem við erum að reyna hjálpa með gerð langtímasamninga og til þess að ná niður verðbólgu, að þau verði sömu bökin og munu þurfa að standa fyrir ábyrgðarleysinu í ríkisrekstrinum. Þau verða að tala skýrt, fólkið í landinu á það inni hjá ríkisstjórninni.“