„Mér finnst merkileg þessi gagnrýni sem kemur frá stjórnarandstöðunni á fjármögnun aðgerðapakkans, í ljósi þess að þetta er risastórt efnahagsmál að kjarasamningar hafi náðst.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag.
Spjótin hafa beinst að ríkisstjórninni um hvernig hún hyggist fjármagna aðgerðapakkann vegna kjarasamninganna sem nemur um 80 milljörðum króna á samningstímanum.
„Ríkissjóður er ekki einhver föst stærð. Það skiptir öllu máli fyrir ríkissjóð að hér skapist friður á vinnumarkaði og að hér séum við með langtímasamninga þannig að verðbólga hjaðni og skapist forsenda fyrir vaxtalækkun,“ segir Katrín.
Katrín lítur svo á að verið sé að fjárfesta í þjóðarhag með þessum aðgerðum en stjórnvöld hafi verið skýr með að ekki eigi að hækka tekjuskatt á lögaðila eða einstaklinga vegna aðgerðanna.
„Það er auðvitað ákveðin tekjuöflun sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun sem liggur fyrir og við munum standa við. Við munum áfram vinna að aðhaldi í rekstri og erum líka ásátt um að á komandi árum sé forgangsmál að ráðast í þessar aðgerðir sem við kynntum.“
Kemur til greina að fara út í einhverjar lántökur?
„Við erum áfram að vinna að þeim markmiðum að draga úr skuldahlutfalli ríkisins og þau markmið hafa ekkert breyst.“
Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir næstu vaxtaákvörðun sína 20. þessa mánaðar. Katrín er spurð hvað hún haldi að viðbrögð Seðlabankans verði við nýgerðum kjarasamningum.
„Nú ætla ég ekki að segja til um það. Það verður bara að koma í ljós,“ segir forsætisráðherra.
Hvaða vonir hefur þú í brjósti?
„Ef við erum að horfa til þess að almenni vinnumarkaðurinn sé að fara sömu leið og breiðfylkingin og fagfélögin þá auðvitað vona ég að það sé verið að senda mjög skýr skilaboð um að hér séum við komin með forsendur til stöðugleika næstu ár og þar með forsendur til vaxtalækkunar. En það er að sjálfsögðu ekki mitt að segja Seðlabankanum fyrir verkum.“
Katrín segist vonast til þess að ferli vaxtalækkunar fari brátt af stað og hún segist bjartsýn á að það gerist.
„Nú verðum við að sjá hvernig miðar í Karphúsinu en markmið aðila vinnumarkaðarins í þessum samningum er að skapa forsendur sem geti stuðlað að vaxtalækkunum og hjöðnun verðbólgunnar.“