„Hermennirnir okkar að deyja í fremstu víglínu“

Arseniy Pushkarenko er nú staddur á landinu. Hann ræddi meðal …
Arseniy Pushkarenko er nú staddur á landinu. Hann ræddi meðal annars um samstarf Íslands og Úkraínu í viðtali við mbl.is. mbl.is/Hermann

Arseniy Pushkarenko, varaformaður utanríkismálanefndar Úkraínuþings, segir að stjórnvöld á Íslandi eigi að tala fyrir því að Úkraína fái inngöngu í Atlantshafsbandalagið (NATO). Það sé sérstaklega mikilvægt nú í aðdraganda NATO-þings sem verður haldið í sumar í Washington D.C. í Bandaríkjunum.

„Við skiljum að þetta er flókin spurning – að hleypa inn landi sem er í stríði. Við skiljum ástandið og við erum reiðubúin að verða fullgildur meðlimur í NATO eftir að stríðinu lýkur. Að svo stöddu viljum við fá stuðning og senda Pútín skýr skilaboð um að hann muni tapa þessu stríði – að við höfum stuðning frá vestrænum ríkjum,“ segir Pushkarenko í samtali við mbl.is.

Móttökur Íslendinga verið hlýjar

Sendinefnd þingmanna frá þjóðþingi Úkraínu, Verkhovna Rada, sem skipa vinahóp Íslands á þinginu eru nú á landinu í boði forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar. Pushkarenko segir í samtali við mbl.is að móttökur Íslendinga hafi verið hlýjar.

„Okkur langar að þakka Íslandi - fólkinu ykkar, stjórnvöldum og stofnunum – fyrir að hafa veitt okkur stuðning. Við dáumst að þeim gildum sem þið hafið tamið ykkur - með elsta þing í heiminum. Við erum þakklátt fyrir samstarf þjóðanna tveggja og vonum að það haldi áfram,“ segir Pushkarenko.

Sendinefndin afhenti forseta Alþingis fána Úkraínu, áritaðan með kveðju frá …
Sendinefndin afhenti forseta Alþingis fána Úkraínu, áritaðan með kveðju frá úkraínskum varnarsveitum á vígvöllunum. Mynd/Alþingi

Ef Vladimír Pútín verður ekki stöðvaður núna verða aðrar þjóðir fyrir barðinu á honum

Hann nefnir að í ljósi sögu Íslands og sameiginlegra gilda þjóðanna skipti máli að þjóðirnar standi áfram saman.

„Alþingi er elsta þing í heiminum og þegar við ræðum um sjálfsákvörðunarrétt, frelsi og sjálfstæði þá eru það þau sameiginlegu gildi sem við erum að verja. Ef við stoppum Pútín ekki núna þá verður Úkraína ekki eina landið sem verður fyrir innrás. Á sama tíma og við [þingmennirnir] erum að ræða þetta ástand þá eru hermennirnir okkar að deyja í fremstu víglínu og að berjast fyrir þessum gildum,“ segir Pushkarenko

Úkraínskir skriðdrekahermenn á ferð í Dónetsk-héraðinu.
Úkraínskir skriðdrekahermenn á ferð í Dónetsk-héraðinu. AFP/Anatolii Stepanov

Ísland gert „virkilega mikið“ fyrir Úkraínu

Pushkarenko segir að með heimsókninni sé hægt að styrkja vinabönd þjóðanna og tryggja að þjóðirnar geti átt í beinum samskiptum við hvort annað. Hann segir Ísland hafa gert mikið fyrir Úkraínu í formi beinnar hjálparaðstoðar en einnig með stuðningi á alþjóðavettvangi.

„Við erum sérstaklega þakklát Íslandi fyrir að taka þátt í því að kaupa korn frá Úkraínu því Pútín er að gera sitt besta til að koma í veg fyrir flutning korns til þjóða sem sárvantar það,“ segir Pushkarenko.

Hefur Ísland gert nógu mikið?

„Þið hafið gert mikið – virkilega mikið,“ segir hann.

Leiðtogafundurinn í Reykjavík sögulegur

Pushkarenko segir að leiðtogafundur Evrópuráðsins sem haldinn var á íslandi á síðasta ári hafi skipt einstaklega miklu máli og hafi verið sögulegur fundurþ Það sé meðal annars vegna þess að samþykkt var að setja á fót tjónaskrá.

Hann segir miklu máli skipta að skrásett sé það mikla tjón sem Rússar hafa valdið  í innrásarstríði sínu og að það verði í kjölfarið krafist skaðabóta frá Rússlandi.

Hann segir meðal annars fulltrúa frá Íslandi hjálpa Úkraínu í þeirri vinnu. 

Flestir muna vafalaust eftir leiðtogafundi Evrópuráðsins.
Flestir muna vafalaust eftir leiðtogafundi Evrópuráðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert