Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að vinna við fjármálaáætlun sé í fullum gangi. Hún sé langt komin og ráðherranefnd um ríkisfjármál hafi fundað reglulega.
Þetta sagði Þórdís Kolbrún við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Margir velta því fyrir sér hvernig stjórnvöld hyggist fjármagna aðgerðapakkann vegna kjarasamninga sem nemur um 80 milljörðum króna yfir samningstímann.
„Það er ljóst að þessi aðgerðapakki kallar á aðgerðir en ég hef verið alveg skýr með það að við erum ekki að fara að sækja þessa fjármuni til þeirra hópa sem eru að njóta góðs af kjarasamningum,“ segir Þórdís.
Spurð hvort hún útiloki lántökur til að fjármagna aðgerðapakkann segir hún:
„Það skýrist allt þegar heildarmyndin er komin, en ég legg á það gríðarlega mikla áherslu að í þessum aðgerðum til þess að landa fjögurra ára kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins felst mjög skýr forgangsröðun.“
Hún segist gera þá kröfu á sjálfa sig og þau sem sammæltust um að þetta væri forgangsröðunin – að fara í þær aðgerðir sem þurfi til að forgangsröðunin birtist skýrt.
Spurð hvort aðgerðirnar kalli ekki á töluverðan niðurskurð segir fjármálaráðherra:
„Þegar ég tala um að þessar aðgerðir kalli ekki á sársaukafullan niðurskurð þá á ég einfaldlega við að það liggja tækifæri víða um kerfið til þess að fara betur með almannafé. Til að mynda eðlilegar breytingar á stofnanakerfi ríkisins.“
Hún segir að mögulega verði hætt við verkefni sem unnið hafi verið við í langan tíma og hafi verið góð og gild ástæða á sínum tíma til ráðast í.
„Við viljum sýna þá almennu kurteisi að gera allt sem við getum til þess að sýna það með skýrum hætti að við séum að fara vel með almannafé. Það er ekki skilyrði að slíkar hagræðingar, uppstokkun og almenn skilvirkni þýði sársaukafullur niðurskurður. “
Þórdís segir að endurskoða þurfi ýmislegt sem gert er og séu tækifæri til að gera það.
„Mér finnst það liggja í hlutarins eðlis að ákvörðun eins og þessi, að leggja til 80 milljarða króna til þess að stuðla að friði á vinnumarkaði næstu fjögur árin, er gríðarlega verðmæt og það er erfitt að setja verðmiða á það.“
Hún segir að erfitt sé að kostnaðarmeta valkostinn að ná fjögurra ára samningi. En með því að ná friði á vinnumarkaði, þar sem hún vonast til að fleiri samningar muni fylgja eftir nýgerðum samningum, náist mikill árangur og fleiri hlutir muni gerast sem ella hefðu ekki gerst.