Getum ekki beðið „með að framkvæma eftirlitið betur“

Guðlaugur Þór segir ljóst að fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits eins og það …
Guðlaugur Þór segir ljóst að fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits eins og það er í dag hafi sýnt fram á galla sína og því þurfi að laga það. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég trúi ekki öðru en að heilbrigðiseftirlitin sem um ræðir, og önnur, taki verklag sitt til endurskoðunar án þess að einhver segi þeim að gera það. Ef þetta er ekki ástæða til að gera það þá veit ég ekki hvað þarf til.“ 

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, inntur eftir viðbrögðum við hlut heilbrigðiseftirlitsins í tengslum við fordæmalausar aðgerðir matvælaeftirlits Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, í matvælalager að Sóltúni 20, en heilbrigðiseftirlitið heyrir undir ráðuneyti Guðlaugs. 

Víðfeðmar aðgerðir undanfarin misseri 

Ýmislegt hefur gengið á síðan umfjallanir um umræddan matvælalager að Sóltúni 20 komust í hámæli í byrjun nóvember.

Fljótlega komu í ljós vísbendingar um að fólk hefði dvalið í kjallaranum og í síðustu viku réðst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í eina stærstu lögregluaðgerð sögunnar, en farið var í aðgerðina vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. 

Samhliða hefur átt sér stað umræða um heilbrigðiseftirlit í landinu og úrræði til eftirlits, en engu veitingahúsi var lokað í tengslum við matvælalagerinn þrátt fyrir að þar hefði fundist bæði lifandi og dauð meindýr. 

Maður vill sjá eftirlitsaðila grípa til aðgerða

„Við sjáum það út frá fréttum undanfarinna vikna að við verðum að hafa virkt eftirlit,“ segir Guðlaugur og bætir við: 

„Ef við sjáum ásetningsbrot með þessum hætti, sem geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, þá vill maður sjá að viðkomandi eftirlitsaðilar grípi strax til aðgerða.“

Í því samhengi segir Guðlaugur áform um að fara í gagngerar breytingar á fyrirkomulagi eftirlits með hollustuháttum og mengunarháttum og matvælaeftirliti með það að markmiði að einfalda kerfið og gera það skilvirkara. 

Umræddar breytingar yrðu í samræmi við niðurstöður starfshóps sem skipaður var í október árið 2022 og lagði til nýtt fyrirkomulag í október á síðasta ári, en um er að ræða vinnu sem vinna þarf í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, matvælaráðuneytið og sveitarfélögin. Aðspurður segir hann þó um að ræða stórt verkefni sem ráðgert er að taki tvö ár að framkvæma. 

Getur ekki verið eðlilegt 

Getum við beðið í tvö ár eftir því að þetta kerfi taki breytingum? 

„Við getum ekki beðið í tvö ár með að framkvæma eftirlitið betur. Í mínum huga er það mjög skýrt að þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem fara með málin, þegar þeir sjá þessa hluti,“ segir Guðlaugur en áréttar að umrædd kerfisbreyting muni taka tíma. 

„En það breytir því ekki að við eigum ekki að vera í óvissu með heilbrigðiseftirlitið. Það á að vera skilvirkt og það á að virka,“ segir Guðlaugur og bætir við: 

„Við eigum ekkert að bíða með það að hafa skilvirkt eftirlit, það þarf enga lagabreytingu til þess, það þarf bara framkvæmd. Það getur ekki verið með allt þetta fyrirkomulag og allan kostnað við þetta, að það sé eðlilegt að sitja uppi með þá stöðu sem við erum að tala um hér.“

Sömu reglur hljóta að gilda alls staðar 

Eins og fram kemur hér að ofan var engu veitingahúsi lokað í kjölfar fordæmalausra aðgerða matvælaeftirlits Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Þá er veitingahúsum sem skora einn í einkunn í eftirliti matvælaeftirlitsins heldur ekki lokað, en starfsemin er takmörkuð eða stöðvuð að hluta. 

Nokkur umræða hefur átt sér stað um traust til eftirlitsaðila í þessu samhengi. Bæði varðandi það hversu lengi veitingahús fái að starfa þrátt fyrir að uppfylla ekki kröfur matvælaeftirlitsins og einnig varðandi upplýsingagjöf til almennings í kjölfar eftirlits á hverjum stað.

Er það sérstaklega vegna þess að það er mismunandi eftir umdæmi hvers heilbrigðiseftirlits hvort niðurstöður úr eftirliti eru aðgengilegar auk þess sem það er mismunandi hvernig þær eru settar fram. 

Aðspurður segir Guðlaugur það gefa auga leið að í 400.000 manna samfélagi hljóti sömu reglur að gilda alls staðar. Það að sömu reglur virðist ekki gilda alls staðar segir Guðlaugur til að mynda koma sér illa í útflutningi á matvöru. 

ESA er í ferli vegna þess að þetta er ekki í nógu góðu standi hjá okkur, þetta er ekki nógu traust kerfi.“

Telur menn ekki þurfa að bíða eftir lagasetningu 

Spurður hvort umdæmum heilbrigðiseftirlitsins beri að birta upplýsingarnar úr eftirliti segir Guðlaugur einfalda svarið vera já. Hann spyr þó hvort þörf sé á að skrifa þá skyldu út í smáatriðum. 

„Ef þú ert að reka heilbrigðiseftirlit, til hvers er það? Það er fyrir fólkið, þarf að skrifa það út?“ spyr Guðlaugur. 

Til útskýringar segir hann mikilvægt að vanda lagasetningu þannig að hún taki á sem flestum þáttum. „En það er svo sannarlega ekki bannað að veita fólki upplýsingar um veitingastaði eða aðra þá sem að framleiða mat,“ segir Guðlaugur sem telur menn ekki þurfa að bíða eftir lagasetningu til þess.

Í því samhengi áréttir hann þó að matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlitsins heyri undir matvælaeftirlitið á meðan annar hluti eftirlitsins heyri undir hans ráðuneyti. 

Ef Danmörk getur gert það þá getur Ísland það

Að lokum berst talið að broskarlakerfi við inngang veitingastaða sem hefur það að markmiði að upplýsa neytendann um niðurstöðu eftirlits með einföldum hætti. Um er að ræða kerfi sem hefur verið við lýði í Danmörku frá aldamótum og kerfi sem Neytendastofa hefur kallað eftir í rúman áratug. 

„Ef Danmörk getur verið með þetta þá getum við verið með þetta, punktur.“

„Samræmd góð upplýsingagjöf er almennt mjög góð regla. Grunnurinn í neytendavernd er að þú vitir hvað þú ert að kaupa og það hlýtur að vera það sama hvort sem þú ert að kaupa mat á veitingastað eða vöru úti í búð.“

Til að slá botninn í mál sitt segir Guðlaugur: 

„Mér finnst aðallega að þetta fyrirkomulag sem við erum með núna hafi sýnt fram á það að það er gallað og það þarf að laga það.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka