Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir ljóst að annað búi að baki fyrirhuguðu frumvarpi til breytinga á lögum um leigubifreiðaakstur, þar sem próf í íslensku verður gert að skilyrði fyrir því að menn geti aflað sér réttinda til aksturs leigubíla, heldur en sérstakur áhugi og velferð á íslensku.
Þetta segir Eiríkur í samtali við mbl.is í kjölfar pistils sem hann birti í facebook-hóp málspjallsins í morgun undir yfirskriftinni „Stöðvum áform um misnotkun Íslenskunnar.“
Í pistlinum reifar Eiríkur forsíðufrétt Morgunblaðsins sem sett var fram með fyrirsögninni „Íslenska verði skilyrði leigubílaleyfis,“ en þar er vankunnátta erlendra leigubílstjóra á íslenskri tungu sögð vera ástæða ófremdarástands í málaflokknum.
Eiríkur kveðst ávallt hafa talað fyrir því að hér á landi eigi að vera hægt að nota íslensku alltaf og alls staðar. Þrátt fyrir það segir hann málefnaleg samskipti leigubílstjóra við farþega ekki endilega þurfa að vera ýkja mikil og að finna megi störf þar sem meiri þörf er á slíkum samskiptum.
„Þessi tillaga gengur ekki út á að gera kröfur um íslensku kunnáttu þess fólks heldur eru leigubílstjórarnir teknir þarna út úr,“ segir Eiríkur og reifar fréttina.
„Sagt er að það sé gert vegna ófremdarástands, svo þegar maður les fréttina og veltir fyrir sér í hverju þetta ófremdarástand er fólgið þá er talað um að leigubílstjórar af erlendum uppruna rati ekki og setji upp óhóflega hátt gjald. Þá spyr maður hvernig aukin íslenska á að bæta úr þessu. Hvernig á hún að auka ratvísi þeirra eða draga úr fékunnáttu þeirra? Þetta bara gengur ekkert upp,“ segir Eiríkur ósáttur við að íslenskan sé notuð sem vopn í útlendingaandúð sem miskunnarlaust hefur verið alið á undanfarna daga og vikur.
„Ég hef alltaf talað fyrir því að það sé gífurlega mikilvægt að fólk sem kemur hingað til að vinna um einhvern tíma, og búa, að það læri íslensku,“ segir Eiríkur og bætir við að rannsóknir sýni að innflytjendur vilji læra tungumálið.
Til þess að innflytjendur geti lært íslensku segir Eiríkur nauðsynlegt að auka tækifæri þeirra til þess. Hér vanti fleiri námskeið auk þess sem hann segir ákjósanlegt að innflytjendum sé gefinn kostur á að læra íslensku á vinnutíma, sérstaklega í þeim störfum þar sem málefnalegar ástæður eru til þess að krefjast íslenskukunnáttu.
„Við þurfum bara að standa okkur miklu betur í að gera fólki kleift að læra íslensku,“ segir hann og bætir við:
„Það sem hefur verið áberandi hér undanfarið er að útlendingar lenda í því að þeir eru hundskammaðir fyrir að tala ekki íslensku, en þetta er fólk sem hefur verið ráðið til starfa án þess að það hafi verið gerðar kröfur um íslenskukunnáttu við ráðningu. Þannig að þetta er á ábyrgð atvinnurekenda.“
Svo er nú eiginlega líka gerð krafa um að erlent vinnuafl læri ekki íslensku því við þurfum svo mikið á vinnuafli að halda.
„Það er nefnilega það. Þetta er svo mikil mótsögn í þessu. Við segjum að við þurfum vinnuafl og forsvarsmenn atvinnulífsins hafa spáð því að innan skamms verði fólk af erlendum uppruna allt að helmingur fólks á vinnumarkaði, en ég held að það detti engum það í hug af alvöru að stoppa það að fólk komi hingað til að vinna. Enda myndi þjóðfélagið hrynja við það,“ segir Eiríkur og bætir við:
„Við stefnum óðfluga að því að búa til tvær þjóðir í landinu með þessu. Ég hef beðið með angist eftir þessu undanfarið, að það kæmi að því að íslenskan yrði notuð opinberlega á þennan hátt til þess að kljúfa þjóðina. Það er að minnsta kosti ekki íslenskunni til framdráttar, svo mikið er víst.“