Ramadan-fræðsluefni aðeins til upplýsingar

Skóla- og frístundasvið hefur um nokkurra ára skeið sent út …
Skóla- og frístundasvið hefur um nokkurra ára skeið sent út fræðsluefni til grunnskóla borgarinnar um ýmsa tyllidaga og hátíðir, innlendar sem erlendar, og útskýrir þar meðal annars ramadan-mánuðinn sem nú er að ganga í garð. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Árið 2017 tókum við saman helstu upplýsingar um ýmsa siði, til dæmis um ramadan og fleiri hluti sem stuðla að skilningi á ólíkum menningum,“ segir Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjóri fyrir fjölmenningu á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, um erindi sem stjórnendum grunnskóla borgarinnar var sent nú er föstumánuður múslima, ramadan, gengur í garð.

Bárust ritstjórn mbl.is þær upplýsingar til eyrna úr skólakerfinu að með dreifibréfi þessu væri starfsfólk skólanna hvatt til þess að sýna þeim nemendum tillitssemi er tækju á sig föstur meðan á ramadan stæði og þótti eðlilegt að grafast fyrir um málið hjá borginni.

Kynning á tyllidögum og íslenskum siðum

Segir Dagbjört frá heimasíðunni Miðju máls og læsis þar sem finna megi fjölbreyttar upplýsingar um ýmsa siði, „allt varðandi inngildandi samfélag hjá okkur. Við sendum út á hverju ári allt sem varðar tyllidaga, þá sendum við í alla skóla og minnum á daga eins og bolludag, jólasiði, páskasiði og fleira. Þetta er gefið upp á nokkrum tungumálum svo skólarnir geti deilt þessu og foreldrar og börn sem eru nýflutt til landsins fái kynningu á ýmsum tyllidögum á Íslandi og læri um íslenska siði,“ segir verkefnastjórinn.

Hún segir hluta af verkefninu vera að útskýra hvað felist í ramadan-föstunni. „Það felur fyrst og fremst í sér að við skiljum og vitum hvað er í gangi, við erum ekki að beina því til skólanna að breyta neinum starfsháttum, þetta er eingöngu til upplýsingar,“ segir hún.

Hjá skólum borgarinnar starfi jú múslimar rétt eins og annars staðar hjá borginni. „Ég vinn með múslima og nú er hann að fasta. Við vitum af því bara eins og öðrum siðum hjá fólki.“

„Viljum bara að fólk viti af þessu“

Kynna stjórnendur þetta þá fyrir starfsfólki skólanna eða er þetta meira fyrir þá til að hafa bak við eyrað?

„Það er svona í bland og einkum til upplýsingar. Börn fasta til dæmis ekki á ramadan og svo er það alltaf val hvers og eins hvort hann fastar eða ekki, það er allur gangur á þessu. Við viljum bara að fólk viti af þessu, þetta byrjaði sem einfaldur einblöðungur hjá okkur á sínum tíma,“ útskýrir Dagbjört.

Dagbjört Ásbjörnsdóttir verkefnastjóri segir að með leiðbeiningunum sé áhersla lögð …
Dagbjört Ásbjörnsdóttir verkefnastjóri segir að með leiðbeiningunum sé áhersla lögð á inngildingu. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð kveðst hún ekki vita hvernig þessum málum sé háttað hjá öðrum sveitarfélögum, Reykjavíkurborg hafi þó deilt efninu til annarra sveitarfélaga og þeim standi til boða að nota það. „En hverjum og einum skólastjóra er í sjálfsvald sett hvernig hann háttar þessu. Ef þú ert með nemanda sem er kominn af barnsaldri og tekur þátt í ramadan er mögulegt að hann geti átt erfitt með að taka þátt í íþróttum, rétt eins og börn fá undanþágu frá íþróttakennslu vegna ýmissa annarra ástæðna,“ segir Dagbjört.

Hún tekur sérstaklega fram að með tyllidagaleiðbeiningunum sé verið að leggja áherslu á inngildingu, þessa mikilvægu gagnkvæmu aðlögun.

„Við þurfum að huga að því að við búum í samfélagi sem er að breytast, við þurfum öll að læra nýja hluti og taka tillit til þess. Við erum með ákveðinn ramma á Íslandi sem við fylgjum, óháð því hvaðan fólk kemur, og við þurfum öll að læra hvert af öðru í síbreytilegu samfélagi,“ segir Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjóri fyrir fjölmenningu á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert