Dugar ekki að nöldra í ungmennum

Þorsteinn Dagur Rafnsson, upprennandi TikTok-stjarna og áhugamaður um sagnfræði.
Þorsteinn Dagur Rafnsson, upprennandi TikTok-stjarna og áhugamaður um sagnfræði. Ljósmynd/Aðsend/AFP

Þorsteinn Dagur Rafnsson, áhugamaður um sagnfræði, hefur nýlega slegið í gegn á samfélagsmiðlinum TikTok. Hann segist hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að framleiða efni á íslensku til að höfða til ungu kynslóðarinnar fremur en erlendra áhorfenda.

„Mér datt þetta í hug út af því að mér fannst skorta aðgengi að svona upplýsingum,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. Honum hafi þótt það skjóta skökku við að bróðurpartur efnis á netinu um íslenska sögu væri á ensku og hafi því ákveðið að taka málið í eigin hendur.

Kveðst Þorsteinn, sem sjálfur er mikill bókaunnandi, hafa ákveðið að miðla þeim upplýsingum sem hann sanki að sér af mikilli ástríðu til þeirra sem ekki séu jafn miklir bókaormar og hann sjálfur eða þyki þeir ekki eiga jafn mikið erindi við sagnfræðibókmenntir.

Hefði verið auðveldara að gera efni á ensku

Þorsteinn hóf framleiðslu efnis á TikTok undir nafninu Þústlar Þorsteins í september í fyrra og hefur því verið að í rúmt hálft ár. Á þeim tíma hefur fylgjendahópur hans vaxið ört en í dag er hann með yfir 3.000 fylgjendur og hefur fengið fleiri en 18 þúsund „læk“ á myndböndin. 

Spurður hvort ákvörðunin um að framleiða efni á íslensku í stað ensku tengist umræðu um málþroska íslenskra ungmenna svarar Þorsteinn játandi.

Það hefði vissulega verið auðveldara fyrir hann að ná árangri á ensku enda margir áhugasamir um Ísland og sögu þess. Þorsteinn kveðst í þokkabót hafa unnið um skeið sem leiðsögumaður og því þaulvanur að miðla upplýsingunum á ensku. 

„Það væri náttúrulega miklu stærri markaðshópur, en það er ekki endilega hópurinn sem skiptir máli. Ég hef bara svo mikla ást á landinu og sögunni okkar að ég vil frekar selja þetta til Íslendinga heldur en útlendinga, sérstaklega yngri kynslóða,“ segir Þorsteinn. 

Yngri kynslóðin áhugasöm og þakklát 

Þorsteinnn telur það ekki duga að nöldra í ungmennum og skammast yfir því að þau tali ekki nógu góða íslensku eða séu ekki nógu fróð um íslenska sögu. Frekar þurfi að gera efnið áhugavert og miðla því á vettvangi sem þau hafi aðgengi að og noti, því áhugann skorti svo sannarlega ekki að hans mati.

„Viðbrögðin hafa verið fáránlega góð og einkennast oft af miklu þakklæti, sérstaklega hjá yngra fólki,“ segir Þorsteinn sem segir eldri kynslóðina duglegri að gagnrýna. 

Mikilvægt sé að mæta fólki þar sem það er og gera fróðleik aðgengilegan. Þegar afþreyingarefni sé til á íslensku, sem fjalli jafnvel um íslensku, þá sé fólk kannski frekar tilbúið til þess að taka á móti því. 

„Ég skynjaði vandamálið allt öðruvísi. Mesti lærdómurinn í lífinu, hann gerist í frístundinni, hann gerist ekki endilega í skólastofu eða þegar menntamálaráðuneytið skipar þér að læra betri íslensku.“

Skilningur á sögunni veitir töfra og dýpt

Spurður hvað framtíðin beri í skauti sér segir Þorsteinn erfitt að segja til um það enda fari mikill tími í framleiðslu efnisins sem hann annist alfarið einn. 

„Ég er með svo mikið efni sem ég á eftir að taka fyrir og eftir því sem fylgjendahópurinn stækkar þá hef ég meiri og meiri metnað fyrir þessu,“ segir Þorsteinn.

Efnið sé fjölbreytt og hann taki fyrir ýmsa kima íslenskrar sögu og menningar. Til að mynda sé hann með myndbandasyrpu sem kallist „lögin okkar“ en nýjasta myndbandið hans er um lagið Heyr, himna smiður, en sögu lagsins má rekja til pólitískrar valdabaráttu á Sturlungaöld. 

„Það vídeó sem hefur gengið best hjá mér er um söguna á bakvið Skólavörðustíg s.s. af hverju það heitir Skólavörðustígur. Þá þarf ég að fara aftur á 13. öld í Skálholt til að útskýra af hverju gata í Reykjavík heitir Skólavörðustígur,“ segir Þorsteinn.

„Þegar maður skilur söguna á bakvið þetta þá er það hlaðið svo miklum töfrum og svo mikilli dýpt.“

@thustlar Saga skjaldbera Íslenska skjaldarmerkisins. Landvættir Íslands. Ég er að hlaða þessu myndbandi aftur upp þar sem mér var bent á stórfenglegan galla í fyrstu útgáfunni… litir fánans voru ekki réttir! Sem er frekar vandræðaleg, en svona lifir hvítbláninn í huga fólks! Ég notaði tækifærið og geri nokkrar aðrar minniháttar breytingar í leiðinni. Texti: Byggt á 33. Kafla Ólafs Sögu Tryggvasonar í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Tónlist: The Spirit Song - Jonna Jinton Módel: Skjaldarmerki Íslands - Teiknari: Tryggvi Magnússon, 3D mesh: Þorsteinn Dagur Rafnsson Lógó Seðlabanka íslands, 3D mesh: Þorsteinn Dagur Rafnsson Maður Harlads: “viking character - human riged model” - Kasit Studio Haraldur Gormsson: “Viking - rigged for animation” - Andy Woodhead Langskip: “Viking Longship” - Foxx Assets Hvalur: “Blue whale” - misaooo Neðansjávar umhverfi: karim aboushousha “UE5:Underwater Blueprint V2” Dreki: “Demon Dragon Full Texture” - endlessvoidmc Fugl: “White Eagle Animation Fast Fly” - GremorySaiyan Griðungur: “bull walk cycle” - Lucy Greenhill Bergrisi: “The Guardian - Kaede Sato” - William Marshall Búið til með Unreal engine 5 #landvættir #skjaldamerki #islenskt #icelandictiktok #islenska #iceland #ísland #folklore #islensktiktok #þjöðsögur #vættir #guardiansoficeland #dreki #fugl #bergrisi #griðungur #austfirðir #bergrisi #vopnafjörður #eyjafjörður #breiðafjörður #reykjanes #reykjanesskagi ♬ original sound - Þústlar



@thustlar Sögur af Íslendingum: Finnur Magnússon Finnur er virkilega áhugaverður karakter í Íslenskri sögu, hvorki honum né þessu atviki eru gerð full skil hérna - það er aðeins tekið fyrir það helsta. Þrátt fyrir þennan niðrandi atburð, þá á Finnur bæði þakkir og lof skilið fyrir sitt framlag til Íslenskrar menningar.  Sérstakar þakkir til @Steina fyrir að lesa yfir stafsetningu í texta og koma með góðar ábendingar! Þig sem viljið kynna ykkur Rúnamó málið frekar, þá mæli ég með að kíkja á - Tíminn - 231. Tölublað,  Blað 2 (10.10.1982) Tíminn, Helgin (08.04.1989) Þórhildur - 2.tbl.3.arg.1985 Runamo og Runerne, 1841 - Bók Finns um Rúnir og Rúnamó (Myndir eru aftast): #icelandic #islenskt #icelandictiktok #islenskttiktok #íslenska #iceland #Ísland #saga #Rúnir #þústlar ♬ original sound - Þústlar



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert