„Mér líður bara vel. Það tók mig tíma að komast þangað en mér líður mjög vel með ákvörðunina, og að vera umkringd svona mikilli hlýju og svona góðum og jákvæðum kröftum hér í dag skiptir mig miklu máli,“ segir Halla Tómasdóttir frumkvöðull um þá ákvörðun sína að bjóða sig fram til embætti forseta Íslands.
Halla boðaði til blaðamannafundar í hugmyndahúsinu Grósku í hádeginu í dag og mættu um 500 manns til fundarins.
Halla segist í samtali við mbl.is vera pínu klökk og meyr að fundi loknum.
Aðspurð hvort það hafi verið erfitt að taka ákvörðun um að bjóða sig fram segir hún ákvörðunina að minnsta kosti ekki hafa verið einfalda.
„Ég held að það sé aldrei einfalt að taka svona stóra ákvörðun,“ segir Halla.
Þá segist hún ekki hafa haft mikinn tíma til að liggja undir feldi í ljósi þess að hún var í mjög annasömu og krefjandi starfi. Þar lágu fyrir brýn verkefni sem þurfti að tryggja góðan farveg áður en hún gat tekið ákvörðunina.
Halla segist einnig hafa þurft að hugsa alvarlega um sýn sína á embættið og hennar erindi áður en hún ákvað að bjóða sig fram.
„Ég hafði aldrei hugsað eftir 2016 að gera þetta aftur. Hafði ekkert verið að velta því fyrir mér, en það má segja að ég hafi ákveðið að taka af skarið fyrir sömu ástæðu og ég bauð mig fram síðast. Ég trúi á styrkleika Íslands og möguleika þess til að láta til sín taka, þá sérstaklega á sviði friðar, jafnréttis og sjálfbærni.“
Þá bætir hún við að það séu þau málefni sem hún hefur alltaf brunnið fyrir og hafi verið hennar leiðarljós.
Þessi verkefni eru miklu stærri núna ef eitthvað er segir hún. „Það gerir það að verkum að ég virkilega ákvað að ég gæti ekki skorast undan."
Halla hefur síðastliðin sex ár verið forstjóri B Team, þar sem hún starfar á heimsvísu að sjálfbærni, jafnrétti og ábyrgð í forystu.
Hún segist sjálf vera reynslunni ríkari eftir að hafa unnið að þessum verkefnum hér heima og á alþjóðasviðinu. Hún hafi haft tækifæri til að vinna síðustu ár að þessum málum með framsýnustu leiðtogum heims bæði á vettvangi stjórnvalda, með yngri kynslóðum og fyrirtækjum.
„Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að embættið tali fyrir því að við setjum þessi stóru mál og tækifæri á dagskrá og að við vinnum samhent að því að vera skapandi samfélag sem sér sóknarfæri bæði í atvinnulífi, menningu og listum í kringum sérstöðu okkar.“
Halla segir mikilvægt að tryggja áframhaldandi verðmætasköpun á grunni náttúru Íslands með því að vinna á sjálfbæran hátt, sem vissulega sé einnig jafnréttis- og mannréttindamál í víðum skilningi.
„Þar höfum við verið í fararbroddi og viljum tryggja að svo sé áfram.“
„Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við séum þjóð sem reynir ekki að skipa okkur í lið heldur veljum frið. Við getum verið vettvangur þess í heimi þar sem aðrir velja stríð.
Litlar þjóðir geta ekki síst skipt sköpum að mínu mati, og ekki síst þessi þjóð með þessa sérstöðu, á þessum sviðum á svona tímum.“
Hún segir helstu áskoranir snúa að því að vera áfram samheldin og skapandi þjóð sem vinnur saman að þessum tækifærum.
„Ég held að það sé ákveðin áskorun á Íslandi sem og annars staðar í dag að við þurfum kannski að læra aftur að tala saman og sýna hvort öðru virðingu jafnvel þó skoðanir séu ólíkar. Það er ekki gott að búa í samfélagi sem er í stríði við sjálft sig.“
Spurð út í verkefnin framundan segist Halla vilja fara og hitta sem flesta á þeirra heimavelli. Hún ætlar að byrja hjá mömmu sinni og eldri borgurum í Kópavogi og svo hitta ungt fólk víða í vikunni.
Svo verður farið í heimsóknir allt í kringum landið og á vinnustaði.
„Ég vil heyra hvað brennur á fólki. Hlusta á það og eiga samtal sem víðast.“