Eldgosið sem braust út á Sundhnúkagígaröðinni í gærkvöldi hefur vakið athygli út fyrir landsteinana ef marka má umfjallanir í hinum ýmsu erlendu miðlum.
Fréttaflutningurinn er misdramatískur en flestir fjölmiðlarnir virðast þó fjalla um málið af yfirvegun.
Fréttastofa breska ríkisútvarpsins fjallar um neyðarástand á Íslandi í kjölfar gossins á Reykjanesskaga.
Danska ríkisútvarpið birti frétt með fyrirsögninni „Aftur gýs í íslensku eldfjalli" og lætur myndband af gosinu fylgja.
Norska ríkisútvarpið ræddi við norska stúlku sem er stödd á Íslandi ásamt skólafélögum sínum. Þegar hún lenti á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag sá hún gosið vel úr lofti.
Einnig hefur verið fjallað um gosið í fréttamiðlunum BBC, CNN, Reuters, SVT, METRO og Bloomberg.
Erlendu fréttirnar eiga það flestar sameiginlegt að fjalla um þá staðreynd að um sé að ræða fjórða gosið á stuttum tíma og nálægð gossins við Bláa lónið.
Einnig er nálægðin við Keflavíkurflugvöll oft til umfjöllunar og þá tekið fram að flugumferð fari fram með eðlilegum hætti.