Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, er brugðið yfir áformum Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra sem hyggst auka útgjöld til listamannalauna um 41% á næstu fjórum árum.
Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna listamannalauna aukist samkvæmt nýju frumvarpi menningarmálaráðherra og á að fjölga launasjóðum og úthlutunarmánuðum.
Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is að það þurfi að finna leiðir til að hagræða í öllum málaflokkum og veltir því fyrir sér hvar fjármunir eigi að finnast fyrir þessa útgjaldaaukningu.
Sendir þessi fyrirhugaða útgjaldaaukning rétt skilaboð á þessum tímapunkti?
„Nei mér finnst þetta vera kolröng skilaboð. Ég geri ekki athugasemd við það að ráðherrar endurskoði einhver lög og færi einhver kerfi sem stjórnvöld og Alþingi hafa ákveðið að hafa við lýði,“ segir hann og bætir við:
„En það er þá ábyrgðarhluti að ræða það hvernig á að fjármagna það og og hvort að það eigi að hætta einhverju öðru í staðinn. Sumt á rétt á sér og annað er kannski orðið barn síns tíma.“
Hann segir að í ljósi þessa frumvarps þá sé kannski komið tilefni til að endurskoða fleiri hluti er varða menninguna.
„Þurfum við enn þá að vera nýta peningana í það að borga heiðurslaun listamanna? Eru þá ekki bara nær að hætta því samhliða svo að hægt sé að fjármagna þessar breytingar?“ spyr Vilhjálmur.
Hann spyr einnig hvort að það eigi að breyta lögum um útvarpsgjald þannig að það verði hægt að nýta þá fjármuni í markmið sem Ríkisútvarpinu er ætlað á sviði lista og menningar. Sem sagt að það renni ekki til Ríkisútvarpsins.
„Fyrst við erum að taka þetta blessaða útvarpsgjald getum við þá ekki nýtt það þá í að greiða þessi listamannalaun?“ spyr Vilhjálmur.
Ertu viss um að listamannalaun séu rétta leiðin til að tryggja grósku í menningarlífinu?
„Nei ég er bara alls ekki viss um það. Ég er miklu frekar til í að skoða hvernig við getum gert starfsumhverfi listamanna og fólks í skapandi greinum enn markvissara frekar en að vera með þessi listamannalaun – sem er nú frekar ógagnsætt hvernig er úthlutað.
Þau eru að útdeila til hvors annars, þannig það er víst pólitík í þessu og annað. Ég held að það ætti að gera gagngerar breytingar á þessum stuðningi frekar en að vera festa hann í sessi með því að hækka hann svona,“ segir Vilhjálmur