Landris heldur áfram við Svartsengi

Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina.
Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Skýr merki eru um áframhaldandi landris við Svartsengi. Bíða þarf eftir frekari GPS-gögnum áður en hægt er að draga frekari ályktanir.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, aðspurður.

Hann segir landrisið í raun aldrei hafa stoppað þrátt fyrir eldgosið sem hófst á laugardagskvöld. „Við vitum ekki hvort það fer eitthvað að hægja á því eða hvenær það hættir en það er allavega skýrt að það er landris núna,” segir hann. Þetta þýði að kvikuflæði sé bæði að fæða eldgosið og kvikugeyminn í Svartsengi.

Virðist ekki vera að hætta – Ólíkt öðrum gosum

Benedikt Gunnar segir ekki útlit fyrir að eldgosið sé að hætta og bendir á að það hafi verið nokkuð stöðugt síðan í gær. Hann segir eldgosið nú þegar hafa staðið lengur yfir en öll hin sem hafa orðið á svipuðu svæði.

Þetta kort sýnir hraunflæðið úr eldgosinu.
Þetta kort sýnir hraunflæðið úr eldgosinu. Kort/mbl.is

„Það eru engar vísbendingar um að því sé að ljúka núna en það getur gerst allt í einu. Það er ekki víst að það hafi mikinn aðdraganda en það er að haga sér öðruvísi en hin gosin,” greinir hann frá.

Þar á hann við að hin gosin byrjuðu með látum og dró hratt úr þeim, eins og raunin hefur verið með þetta gos, en síðan hættu þau, ólíkt þessu gosi.

Hrauntungur hættar að hreyfast

Hvað varðar hraunflæðið segir Benedikt Gunnar jaðar beggja hrauntungnanna vera hættan að hreyfast og virðist nýja hraunið flæða ofan á það sem fyrir er. Hann segir ekki útilokað að hrauntungurnar færist lengra áfram en telur það ólíklegra eftir því sem lengri tími líður.

Benedikt Gunnar Ófeigsson.
Benedikt Gunnar Ófeigsson. mbl.is

Spurður út í möguleg eldgos í Eldvörpum kveðst hann ekki sjá nein merki um að eitthvað sé að fara að gerast þar. Hann segir afar ólíklegt að á meðan eldgos sé í gangi muni kvikan brjóta sér leið eitthvað annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka