Vilja banna veðmál á kappleiki barna

Á síðustu árum hefur veðmálahegðun Íslendinga tekið miklum breytingum. Fjöldi …
Á síðustu árum hefur veðmálahegðun Íslendinga tekið miklum breytingum. Fjöldi erlendra vefsíðna gefur Íslendingum færi á að veðja á allt milli himins og jarðar, en þó fyrst og fremst íþróttaúrslit, að því er segir í greinargerð þingmannanna. Ljósmynd/Colourbox

Tíu þingmenn úr röðum Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um bann við veðmálastarfsemi í tengslum við íþróttakappleiki ósjálfráða ungmenna og skipulagningu hennar.

Þar er kveðið á um að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að undirbúa frumvarp sem kveði á um að veðmálastarfsemi í tengslum við íþróttakappleiki ósjálfráða ungmenna og skipulagning hennar verði bönnuð og gerð refsiverð. Farið er fram á að ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á vorþingi 2025.

Flutningsmenn tillögunnar eru þau Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, Kári Gautason, varaþingmaður VG, Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, Brynhildur Björnsdóttir, varaþingmaður VG, Orri Páll Jóhannsson, þingmaður VG, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, Bjarni Jónsson, þingmaður VG, Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. 

Vaxandi vandamál

„Með tillögu þessari er kallað eftir því að dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp sem kveður skýrt á um að veðmálastarfsemi og skipulagning hennar sé ólögleg í tengslum við íþróttakappleiki í flokkum þar sem iðkendur hafa ekki náð átján ára aldri að jafnaði, með hertum viðurlögum. Slík veðmál eiga sér nú þegar stað í talsverðum mæli og eru vaxandi vandamál að mati þeirra sem best þekkja til,“ segir í greinargerð.

Þingmennirnir benda á að á síðustu árum hafi veðmálahegðun Íslendinga tekið miklum breytingum. Meðal þess sem hægt sé að veðja um á á erlendum síðum séu íslenskir íþróttakappleikir, ekki síst knattspyrnuleikir. 

Veðmálastarfsemi á sér ýmsar skuggahliðar

Bent er á, að veðmálastarfsemi eigi sér ýmsar skuggahliðar og tekið er fram að spilavandi tengdur íþróttaveðmálum sé talinn vera vaxandi vandamál og séu ungir karlmenn líklegri en aðrir til þess að glíma við hann.

„Með tillögu þessari er spjótunum beint að einum afmörkuðum anga ólöglegu starfseminnar; veðmálastarfsemi í flokkum þar sem iðkendur hafa ekki náð átján ára aldri að jafnaði,“ segir í greinargerðinni. 

Þá er bent á að víða í nágrannalöndum Íslands gildi sérstök bönn við veðmálum á kappleiki barna. Í Bretlandi sé strangt bann við að bjóða upp á veðmál á keppni í flokkum yngri en átján ára og árið 2021 hafi sænskt veðmálafyrirtæki verið sektað um eina milljón sænskra króna fyrir að hafa boðið upp á veðmál um kappleik þar sem flestallir leikmenn voru undir átján ára aldri, þótt um meistaraflokksleik væri að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert