Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ætlar að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.
Þessu greindi hann frá á fundi í Bæjarbíói í Hafnarfirði.
Rúmlega 18 þúsund manns eru í Facebook-hópnum Baldur og Felix - alla leið þar sem Baldur hefur verið hvattur til dáða.
Baldur sagði fólk hafa byrjað að koma að máli við hann og eiginmann hans Felix Bergsson um að stíga fram á nýársdag. Hann viðurkenndi að hann hefði verið feiminn gagnvart verkefninu til að byrja með og bætti við að hann og Felix hefðu til að byrja með ekki séð sjálfa sig sinna þessu hlutverki.
Baldur sagði margt hafa breyst á undanförnum árum og ekki endilega allt til hins betra. Sótt hefði verið að mannréttindum beggja vegna Atlantshafsins, til dæmis mannréttindum kvenna og hinsegin fólks, auk þess sem upplýsingaóreiðan væri alvarleg.
„Við getum ekki lengur setið hjá og látið hvatningarorð sem vind um eyru þjóta. Við ætlum að svara kallinu hátt og skýrt og taka slaginn”, sagði hann.
Baldur sagði að ef Alþingi myndi ganga fram af þjóðinni á einhvern hátt og virða ekki samfélagssáttmálann ætti forseti Íslands að huga að því hvort vísa ætti málinu til þjóðarinnar. Nefndi hann dæmi um það ef Alþingi gengi gegn tjáningarfrelsinu eða grundvallarmannréttindum kvenna eða hinsegin fólks.
Baldur hefur meðal annars stýrt Rannsóknarsetri um smáríki þar sem rannsóknir hans hafa að miklu leyti snúist um getu smáríkja til þess að verja hagsmuni sína og hafa áhrif út á við.
Hann sagði mikilvægt að forseti talaði máli þjóðarinnar á erlendri grundu og nefndi að forseti ætti að opna dyr fyrir stjórnvöldum og fólkinu í landinu. Forseti ætti jafnframt að tala fyrir friði.
Hann sagði forsetann verða að standa vörð um þjóðina. Valdefla þyrfti börn, ungmenni, foreldra og fagaðila.
„Ef við náum árangri hér heima þá getum við líka náð árangri erlendis,” sagði Baldur og átti m.a. við mannréttindamál og málefni barna og ungmenna.
Hann sagði sömuleiðis að hann og Felix myndu standa þétt við bakið á þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu ef hann næði kjöri.
Ræða Baldurs í heild sinni: