María Sakharóva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, segir Ísland þjálfa úkraínska sjóliða á yfirráðasvæði sínu. Segir hún málaliða frá Íslandi ferðast til Úkraínu.
Þetta er haft eftir henni í færslu, sem utanríkisráðuneyti Rússlands hefur birt á X, þar sem stuðningur Íslands við Úkraínu er gagnrýndur og Ísland sagt styðja úkraínska nasista.
Þá er dregið í efa hve friðsamt Ísland er í færslunni.
„Hið ó-svo „friðsama“ Ísland reynir þannig að halda í við æðri bandamenn sína við að styrkja úkraínska nasista.“
💬 #Zakharova: Iceland is among the countries whose mercenaries have travelled to Ukraine. It also trains Ukrainian military sailors on its territory.
— MFA Russia 🇷🇺 (@mfa_russia) March 20, 2024
❌ The oh-so "peaceful" Iceland is thus trying to keep up with its senior allies in sponsoring Ukrainian Nazis. pic.twitter.com/xV0TaRSYAQ
Ísland hefur tekið að sér þjálfun úkraínskra sjóliðsforingjaefna sem fá verklega þjálfun við Ísland í siglingafræði, eftirliti og aðgerðum á hafi, meðal annars leit og björgun.
Verkefnið er hluti af þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins.
Utanríkisráðuneyti Rússlands merkti sendiráð Rússlands á Íslandi og íslenska utanríkisráðuneytið í færslunni. Rússneska sendiráðið deildi einnig færslunni á eigin reikningi.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra kynnti í gær þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning við Úkraínu til fimm ára.