Góður möguleiki á að gosið verði langvinnt

Kvika flæðir upp úr nokkrum gígum á gossprungunni.
Kvika flæðir upp úr nokkrum gígum á gossprungunni. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Góður möguleiki er á að eldgosið við Sundhnúkagígaröðina verði langvinnt og eru engar vísbendingar um að dregið hafi úr krafti þess síðustu daga. Framleiðnin hefur að jafnaði mælst tæplega 15 rúmmetrar á sekúndu frá 17. mars, sem er svipað og í eldgosunum í Fagradalsfjallskerfinu.

Engin leið er að spá fyrir um hvenær eldsumbrotin líði undir lok en margar ómælanlegar breytur hafa áhrif á það, til að mynda magn kviku í kvikuhólfinu og hreyfingar í jarðskorpunni.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sviðsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.

Vísbendingar frá 18. mars

Jarðvísindamenn telja líklegt að kvikan sem flæðir nú upp um gosopið komi frá miklu dýpi, og flæði í gegnum kvikuhólfið sem hefur myndast undir Svartsengi.

Að sögn Benedikts hafa vísbendingar verið um það frá 18. mars. Hefur landris til að mynda verið mun minna við Svartsengi en undanfarna mánuði.

Líklegt að einn gígur myndist

Hraunið kemur upp í nokkrum gígum á gossprungunni en að sögn Benedikts er ekki ólíklegt að einn stór gígur taki að myndast haldi gosið áfram í lengri tíma.

Hafa sérfræðingar á Veðurstofunni nú fyrst og fremst áhyggjur af hraunflæðinu úr sprungunni, verði gosið langvinnt, og hvernig hægt verði að stýra því frá Grindavík.

Eins og greint var frá í gær á mbl.is gæti hraun flætt yfir varnargarða norðan við bæinn. Þá rann hraun í Melhólsnámu í gær sem hefur m.a. verið notuð við byggingu varnargarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka