Aðdragandinn að framboði Baldurs Þórhallssonar til embættis forseta virðist hafa verið þaulskipulagður að sögn almannatengla. Það gengur í berhögg við yfirlýsingar frambjóðandans sjálfs.
Þetta kemur fram í spjalli þeirra Nadíne Guðrúnar Yaghi og Þórhildar Þorkelsdóttur í Spursmálum í dag. Þær eru báðar reyndir fjölmiðlamenn og starfa í dag við almannatengsl, annars vegar hjá flugfélaginu Play og hins vegar hjá samskipta- og ráðgjafarfyrirtækinu Brú.
Þórhildur segir að undirbúningurinn að framboðinu og framsetningin þegar það var tilkynnt hafi verið til mikillar fyrirmyndar.
„Ég gef þeim A+ fyrir framsetninguna og útfærsluna á því hvernig þeir gera þetta. allt í einu fæ ég invæt um að læka facebook-síðu þar sem þeir eru hvattir til að koma fram. Svo í framhaldinu koma fréttirnar, það hafa margir komið að máli við mig, við liggjum undir feldi, við erum að hugsa þetta...“
Og Nadine bætir við að þarna hafi verið búið að hugsa hlutina í þaula.
„Já reyndar mjög augljóst að það var búið að ákveða þetta, held ég. Þetta er stórt plan. Svo setja þeir inn þessa mynd, tilkynningin um að þeir séu að fara að tilkynna um þetta. Hún er rosalega flott, fjölskyldumynd með öllum barnabörnunum, þjóðþekkt leikarapar. Þetta er fagurfræðilega mjög vel gert.“
En þá vaknar spurningin um hvort framboðið hafi í raun orðið að veruleika vegna stuðnings úr óvæntri átt og að Baldur og Felix hafi svarað kallinu eða hvort þarna hafi þeir sjálfir stýrt atburðarásinni að einhverju leyti.
Sé greining Nadine rétt, ríma lýsingar frambjóðandans ekki alveg við það sem gerðist að tjaldabaki, eða hvað?
„Planað og ekki planað. Ég veit ekki hvort þeir hafi beint verið búnir að ræða það sín á milli en jú, ég held að þetta hafi verið planað,“ segir Nadine.
Er þetta ekki bara svona með einum eða öðrum hætti þegar fólk fer í framboð, það útfærir það einhvern veginn. Svo var gaman að sjá að blaðamannafundurinn byrjaði klukkan tólf á hádegi og svo þegar ég var að keyra klukkan tvö þá var bara komin auglýsing á strætóskýli.“
Viðtalið við Nadine og Þórhildi má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan: