Baldur tjáir sig um málskotsrétt forseta

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi telur að forseti Íslands megi aldrei verða …
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi telur að forseti Íslands megi aldrei verða meðvirkur með ríkisstjórninni. Samsett mynd

Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi og stjórnmálafræðiprófessor, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann áréttar afstöðu sína og skoðanir um málskotsrétti forseta.

Yfirslýsingin birtist í Facebook-færslu í hópnum Baldur og Felix - Stuðningsfólk og ritar Baldur að hann hafi tekið eftir því í umræðunni að fólki leikur forvitni á að vita meira um afstöðu hans. 

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður ritaði meðal annars færslu í dag þar sem hann segir að Baldur hafi verið „skeleggur talsmaður ríkisvæðingar Icesvaveskuldanna“, en Baldur var varaþingmaður Samfylkingarinnar 2009-2013. 

Á þeim árum synjaði Ólafur Ragnar Grímsson forseti í tvígang staðfestingu laga um Icesave og krafðist Sigurður þess að Baldur svaraði hvenær hann teldi að málskotsrétti forseta kunni að verða beitt, „og að hann heiti því að virða vilja þjóðarinnar umfram sína eigin pólitísku afstöðu“.

Vitnaði Sigurður í viðtal við Baldur á Vísi þegar að Icesave var til umfjöllunar á Alþingi. Í viðtalinu sagði Baldur að það yrði alvarlegt áfall fyrir orðspor Íslands að hafna samningunum. 

„Hárrétt“ að vísa málinu til þjóðarinnar

Það var hárrétt af Ólafi Ragnari Grímssyni að vísa ICESAVE málunum til þjóðarinnar á sínum tíma. Þegar um er að ræða gríðarlega umdeilt mál með svo mikla þjóðarhagsmuni verður forseti að vega og meta hvort að þjóðin eigi að hafi síðasta orðið,“ segir í svari Baldurs. 

Þá segir að forsetinn megi aldrei vera meðvirkur með ríkisstjórninni. 

Jafnframt bendir hann á að hlutverk fræðimanna sé allt annað en forseta, en Baldur hefur verið fræðimaður við Háskóla Íslands frá árinu 2000.

„Fræðimönnum ber meðal annars skylda til að benda á kosti og galla umdeildra mála. Hlutverk forseta Íslands er að svara kalli þjóðarinnar og tryggja að hún hafi síðasta orðið gangi þingið fram af þjóðinni,“ segir í færslu Baldurs. 

Gengi ekki í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu

Þá segir Baldur að þjóðin eigi að hafa síðasta orðið í stórum og umdeildum málum, og að það kæmi aldrei til greina að hans mati að Ísland myndi ganga í ESB án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Einnig er mikilvægt að nefna að ef Alþingi einhverra hluta vegna gengur á rétt til málfrelsis, réttindi kvenna eða réttindi hinseginfólks verður forseti að vera tilbúinn að grípa inn í og vísa málum beint til þjóðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert