Eiturefnið sem lak á gólf Endurvinnslunnar á Akureyri um miðjan febrúar reyndist vera skordýraeitur. Samkvæmt evrópskri reglugerð hefur eitrið verið bannað síðan árið 2020.
Rúv greinir frá því að efnið reyndist vera dímeþóat.
Eitrið lak úr flösku þegar starfsfólk stöðvarinnar var að tæma hana fyrir pressu. Í kjölfarið fann starfsfólkið fyrir ertingu í augum og öndunarfærum.
Samkvæmt frétt Rúv hefur lögreglan tilkynnt niðurstöður greiningarinnar til Umhverfisstofnunnar og sóttvarnaryfirvalda.
Þá segir að ekki sé vitað hvaðan efnið kom og ekki heldur í hvaða tilgangi það hafi verið notað.
Ekki náðist í lögregluna á Norðurlandi eystra við vinnslu þessarar fréttar.