Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, telur að verðhækkun á húsnæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins geti verið skýring þess að verðbólga hefur hækkað um 0,2 prósentustig frá síðasta mánuði.
Verðbólga mælist nú 6,8%
Hann segir markaðsverð húsnæðis hafa hækkað um 1,6% á milli mánaða, samkvæmt mælingum Hagstofunnar.
„Þar innan er húsnæði á landsbyggðinni að hækka miklu hraðar en á höfuðborgarsvæðinu. Líklega eru þetta að verulegu leyti áhrif af eftirspurn Grindvíkinga eftir húsnæði í nágrenni höfuðborgarinnar.
Fregnir hafa verið af því að eftirspurn hafi verið mikil eftir íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum og að verð hafi verið að hækka þar. Sá þrýstingur er því farinn að mælast.“
Jón Bjarki segir þó góð tíðindi fram undan þar sem Hagstofan ætli að taka upp breytingu á útreikningi húsnæðisliðsins í júní. Framvegis byggist hann á leiguverði í stað markaðsverðs húsnæðis, eins og raunin sé víða í nágrannalöndunum.
„Ein rökin fyrir þessari breytingu eru þau að aðstæður á fjármálamarkaði hafi of mikil áhrif á þróun reiknuðu húsaleigunnar. Sem dæmi hafi vaxtalækkunin mikla í heimsfaraldrinum hleypt miklu lífi í húsnæðismarkaðinn, og miklu meira í kaupmarkaðinn heldur en leigumarkaðinn.
Þar fyrir utan er vaxtaþátturinn líka að hafa áhrif til hækkunar þessa dagana. Frá og með júní þykir mér því líklegt að þessi liður fari nú að vera fyrirsjáanlegri og minni sveiflur verði í mánaðarmælingum. Leiguverð sveiflast mun minna í svona mælingum en íbúðarverð gerir.“
Jón Bjarki er í framhaldinu spurður hvenær vænta megi áhrifa nýgerðra kjarasamninga á verðbólguna.
Hann telur að fyrstu áhrifin gætu farið að sjást nokkuð fljótt, vegna þess að fyrirtæki á almennum markaði hafi nú fyrirsjáanleika um hvernig launakostnaður muni þróast næstu fjögur árin.
Jón Bjarki bendir sérstaklega á smásölumarkaðinn, sem vegi þungt í vísitölu neysluverðs, og nú sé starfsfólk í þeim geira komið með nýja kjarasamninga.
„Nú stendur upp á fyrirtækin að sýna það að þetta hafi áhrif á verðþróun, það er að hófleg hækkun launa skili sér inn í hóflega hækkun verðlags. Það hjálpar líka til að hagkerfið er að kólna allhratt, sem dregur úr eftirspurn og eykur samkeppni um að halda markaðshlutdeild.“
Jón Bjarki er þá spurður hvort hann tali með sama hætti og seðlabankastjóri, sem talaði nokkuð beint til verslunar og þjónustu um að sýna aðhald í verðhækkunum.
„Já, ég held að það þurfi líka alveg að halda því til haga að þetta stendur ekki bara upp á launafólk, heldur líka að þessir frekar hagfelldu kjarasamningar skili sér áfram inn í verðlagið.“
Að síðustu er Jón Bjarki spurður hverju uppfærðar tölur Hagstofunnar um íbúa landsins breyti. Sé það rétt að Hagstofan hafi lengi ofreiknað íbúa landsins um 15 þúsund, hafi þá hagvöxtur undanfarinna ára á mann verið talsvert meira en opinberar tölur hafi gefið til kynna?
Jón Bjarki telur svo hafa verið en að skekkjan í íbúatölunni hafi byggst upp á löngum tíma. Söguleg fjölgun hafi verið á erlendu starfsfólki undanfarin ár en vitað sé að margir fóru aftur til síns heima í heimsfaraldrinum án þess að skrá sig úr landi. Miðað við uppfærðar upplýsingar megi því draga nýjar ályktanir:
„Landsframleiðsla á mann var því nokkuð meiri á síðasta ári. Það má sjá af því að landsframleiðslutölurnar voru uppfærðar aftur í tímann og svo hitt að hún skiptist niður á færri hausa.
Framleiðnivöxtur hefur því verið meiri en ætlaður var. Það eru góðar fréttir og vísbending um að innistæða sé fyrir kaupmáttarvexti undanfarið. Færri hendur hafa því verið að skapa meiri verðmæti,“ segir Jón Bjarki að lokum.