Hernaðarandstæðingar fordæma vopnakaupastuðning Íslands

Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.
Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga. Mynd úr safni

Sam­tök hernaðarand­stæðinga mót­mæla harðlega áform­um ís­lenskra stjórn­valda um að styðja við vopna­kaup Tékk­lands fyr­ir Úkraínu.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu sam­tak­anna. 

„Þá eru stjórn­mála­menn líka farn­ir að leggja til að Íslend­ing­ar leggi til her­menn í mögu­leg­an nor­ræn­an her. Nú síðast lýsa ís­lensk stjórn­völd því yfir að þau ætli að fjár­magna kaup á vopn­um og flutn­ing þeirra til að auka enn á stríðshörm­ung­ar í Úkraínu. Þessa þróun og stefnu­breyt­ingu er brýnt að stöðva og það strax,“ seg­ir í til­kynn­ingu sam­tak­anna.

Lítið fram­boð hef­ur verið af skot­fær­um og því byrjaði Tékk­land, í sam­starfi við aðrar þjóðir, að út­vega skot­færi fyr­ir stór­skota­lið Úkraínu. Ísland legg­ur 298 millj­ón­ir króna til verk­efn­is­ins og mun einnig hjálpa við kaup á búnaði fyr­ir kon­ur í úkraínska hern­um.

Segja mik­il­vægt að Ísland stofni aldrei her

Sam­tök­in minna á að Ísland sé herlaus þjóð og segja mik­il­vægt að Íslend­ing­ar stofni aldrei her. Telja sam­tök­in að án hers séu eru Íslend­ing­ar í kjöraðstöðu til að standa við stefnu um frið án hernaðar og að vera mál­svar­ar friðsam­legra leiða til að leysa ágrein­ing víða um heim.

„Lengst af á þeim 75 árum sem eru frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að hernaðarbanda­lag­inu NATO, tók Ísland ekki þátt í her­ráði NATO og lagði því hvorki til her­menn né dráp­stól.

Á seinni árum hafa víg­fús­ir stjórn­mála­menn hins veg­ar bætt æ meir í þátt­töku Íslands í víg­búnaði og hernaðarátök­um. Gróft dæmi þess var þegar ís­lensk­ir ráðherr­ar settu Ísland á lista yfir þjóðir sem væru vilj­ug­ar til að heyja stríð í Írak,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni. 

Eina lausn­in vopna­hlé

Ítreka sam­tök­in að þau for­dæmi inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. 

„Hver dag­ur sem stríðið mun standa áfram, mun verða fram­hald á sömu hörm­ung­um. Þúsund­ir ungra karl­manna hafa dáið og örkuml­ast í þessu stríði og nú er verið að sækja ung­ar kon­ur til að falla í þess­um von­lausu skot­gröf­um líka. Þessu galna stríði lýk­ur ekki með „sigri“ á víg­völl­um, áfram­hald­andi stríð í Úkraínu mun bara versna.“

Sam­tök hernaðarand­stæðinga segja að eina lausn­in í þessu stríði sé að komið verði á taf­ar­lausu vopna­hléi og friðarviðræðum í kjöl­farið. 

„Það er skylda okk­ar Íslend­inga að standa föst­um fót­um sem herlaus þjóð og beita okk­ur fyr­ir friðsam­legri lausn á stríðinu í Úkraínu,“ seg­ir að lok­um í til­kynn­ing­unni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert