Margir velta því nú fyrir sér hvort að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé á leið í forsetaframboð.
Sjálf hefur hún ekki útilokað framboð og framámenn í Vinstri grænum, sem blaðamaður mbl.is hefur rætt við, segja hana íhuga málið.
Telja þeir flestir að Katrín gefi sér tíma til að hugsa málið mjög alvarlega yfir páskahátíðina.
Sumir þeirra sem blaðamaður hefur tekið tali segja að ákvörðun hennar muni ráðast af því hvort að hún telji sig líklega til sigurs.
Þá muni einnig hafa áhrif þau samtöl sem hún eigi eftir að eiga við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknar. Saman leiða þau þrjú þá ríkisstjórn sem setið hefur við völd frá árinu 2017.
Athygli vekur að enginn sem blaðamaður ræddi við telur útilokað að Katrín bjóði sig fram og ekki heldur að það sé ólíklegt.
Sumir benda á að hún hafi fengið margar áskoranir árið 2016 en hafi ákveðið að halda sig til hlés.
Hið sama gæti verið uppi á teningnum núna.
Mögulegt framboð Katrínar hefur verið á milli tannanna á fólki í nokkra mánuði. Í viðtölum sem og á Alþingi hefur hún ekki útilokað framboð.
Síðast þegar mbl.is ræddi við Katrínu um málið sagði hún að fleiri væru að hvetja hana og að hún hefði ekki tekið afstöðu til mögulegs framboðs.
Á nýársdag, þegar Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti að hann hygðist ekki bjóða sig fram til áframhaldandi setu á Bessastöðum, ræddi mbl.is við Katrínu um mögulegt framboð.
Þá kvaðst hún ekki hafa íhugað málið en hygðist þó sitja áfram sem forsætisráðherra út kjörtímabilið.
„Ég er bara á mínum stað og hyggst vera þar til loka kjörtímabils,“ sagði Katrín þann dag í samtali við mbl.is.
Hún var þó ekki svo afgerandi í afstöðu sinni, um að sitja áfram sem forsætisráðherra út kjörtímabilið, í byrjun þessa mánaðar er hún var spurð í tvígang hvort að hún hygðist bjóða sig fram til forseta.
Það var Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sem spurði hana á Alþingi um mögulegt framboð.
„Ég ætla bara að segja það að ég trúi því nú varla að í kjördæmaviku þingmanna Flokks fólksins hafi þetta verið eina spurningin – aðalspurningin. Þannig að ég vil bara hughreysta háttvirtan þingmann og segja að ég er bara enn í starfi mínu sem forsætisráðherra og verð hér áfram um sinn,“ svaraði Katrín fyrstu fyrirspurn Guðmundar.
Hann lét þó þetta svar ekki duga og spurði Katrínu aftur:
„Já eða nei – af eða á: Ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að bjóða sig fram til forseta eða er hann að íhuga það?“ spurði Guðmundur.
Þá svaraði Katrín:
„Ég hef ekki leitt hugann að slíku framboði enda eru ærin verkefni í forsætisráðuneytinu.“
Þann 5. mars ræddi mbl.is aftur við Katrínu og er óhætt að segja að annað hljóð var komið í strokkinn frá því að mbl.is ræddi við hana á nýársdag.
„Það eru ýmis önnur verkefni sem ég hef verið að sinna. Það má kannski segja að það hafa fleiri verið að stíga fram og hvetja mig til að hugsa þetta, en ég hef ekki gert það,“ sagði Katrín aðspurð.
En þú ert ekki tilbúin að útiloka framboð?
„Ég hef ekki tekið neina afstöðu til þess og hef ekki gefið þessu þann tíma til að hugsa þetta af alvöru,“ svaraði Katrín.
Þegar hafa nokkrir frambjóðendur stigið fram og tilkynnt framboð. Þeirra mest áberandi eru:
Guðni forseti hefur þá sjálfur, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins, viðurkennt að honum berist stöðugar hvatningar og áskoranir um að endurskoða ákvörðun sína um að láta af embætti í sumar.
Guðni tilkynnti sem kunnugt er um áramótin að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri þegar öðru kjörtímabili hans lýkur 31. júlí. Við það tækifæri sagði hann að eftir vandlega íhugun hefði hann ákveðið að láta hjartað ráða för og láta staðar numið. Guðni hefur síðar sagt að hann hlakki til að snúa sér aftur að fræðastörfum og kennslu.
Síðustu daga og vikur hefur mikill fjöldi fólks annaðhvort lýst yfir framboði eða lýst áhuga á framboði til embættis forseta. Við það virðist sem mörgum lítist ekki á blikuna og sæki nú fastar að Guðna en áður að endurskoða ákvörðun sína:
„Ég hef fengið áskoranir, beiðnir og spurningar um hvort hefja megi söfnun undirskrifta en hef ekki léð máls á slíku. Sem fyrr er ég þakklátur fyrir góðan stuðning. Ákvörðun um að láta gott heita er hins vegar það stór að henni verður ekki breytt nema afar ríkar ástæður séu til þess.“
Sumir innan Vinstri grænna segjast einmitt aðspurðir telja að Katrín sé enn orðuð við embættið vegna þess að mörgum kjósendum þyki núverandi frambjóðendur ekki starfinu vaxnir.
Velta þeir því fyrir sér hvort að ákall eftir framboði Katrínu verði jafnvel enn háværara eftir páska.
Af samtölum við framámenn í flokknum, sem og af orðum Katrínar, má ráða að hún íhugi málið alvarlega um þessar mundir. Hún sé þó enn ekki búin að taka í gikkinn, ekki einu sinni að tjaldabaki.