Sala á Íslandsbanka geti skilað 100 milljörðum til ríkisins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra. Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram frumvarp um sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að sala á hlut ríkisins í bankanum sé virði allt að 100 milljörðum.

Útboðið opið almenningi

Ríkið á nú 42,5% í Íslandsbanka eða 850 milljón hluti. Samkvæmt frumvarpinu verður farið í söluna á næstu misserum og mun fjármála- og efnahagsráðherra sjá um söluna á grundvelli sérstakra laga.

Frumvarpið gerir ráð fyrir markaðssettu útboði, í einni eða fleiri lotum. Útboðið verður því opið bæði almenningi og fagfjárfestum. Almenningi er gefinn kostur á að gera tilboð frá 100 þúsund krónum upp í 20 milljónir. 

Hafa þegar selt 57,5% í bank­an­um

Í gildandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir ráðstöfun á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka á árunum 2024 og 2025. 35% hlutur í bankanum var seldur með frumútboði til almennings í júní 2021 og 22,5% hlutur var svo seldur með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi í mars 2022.

Þá varð tals­verð óánægja með síðara fyr­ir­komu­lagið og aðkomu þáverandi efnahags- og fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar. Í fram­hald­inu tók umboðsmaður Alþing­is ferlið til skoðunar. Komst hann að þeirri niður­stöðu að Bjarna hefði brostið hæfi við ákvörðun sína.

Leiddi álitið til þess að Bjarni sagði af sér sem fjár­málaráðherra og tók svo við sem ut­an­rík­is­ráðherra.

Bankasýslan kemur ekki nálægt sölunni

Búið er að slá út af borðinu sölu af hálfu Bankasýslunnar. Í frumvarpinu segir að í apríl 2023 hafi forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkana gefið út yfirlýsingu þar sem tekið er fram að til stæði að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður og innleitt yrði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Ekki er búið að leggja Bankasýsluna niður en frumvarpið segir að vinna við útfærslu nýs heildstæðs fyrirkomulags varðandi utanumhald eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum í eigu ríkisins stendur yfir.

Þá kemur fram að Bankasýslan muni ekki koma nálægt sölunni heldur verður hún undir stjórn fjármála- og efnahagsráðherra á grundvelli sérstakra laga. 

Mikilvægt að selja núna

Þá segir í frumvarpinu að sala eignarhlutarins þyki nokkuð aðkallandi til að draga úr fjárhagslegri áhættu ríkissjóðs og stuðla að meginmarkmiðum stefnu í opinberum fjármálum um lækkun skuldahlutfalls ríkissjóðs.

Í frumvarpinu er tekið fram að við sölumeðferðina skuli gæta að meginreglum um jafnræði, gagnsæi, hagkvæmni og hlutlægni. 

Þá er ráðherra gert skylt að fá óháðan aðila til að gera úttekt á framkvæmdinni skuli frumvarpið verða að lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert