Bókaútgáfa Diego, Elko Air og skemmtigarður við jökullón

Samsett mynd

Marg­ir hafa ef­laust haft var­ann á þegar þeir lásu skringi­leg­ar frétt­ir eða til­kynn­ing­ar frá fyr­ir­tækj­um í dag enda fyrsti apríl og því mikið um fífla­læti og svo­kölluð apríl­göbb.

mbl.is tók saman brot af því besta. 

A4 greindi frá því að stjörnukisinn Diego myndi árita nýútkomna bók sína í verslun þeirra í Skeifunni. Bókin ber nafnið Líf mitt í Skeifunni og voru einungis fimm þúsund eintök til. 

Elko greindi frá nýju flugfélagi sem nefnist Elko Air. Flugfélagið ætlar að sameina þægindi og skemmtun.

Meðal annars verður í boði háhraða nettenging, efni frá öllum helstu streymisveitunum ásamt því að hægt verður að spila vinsæla tölvuleiki í PlayStation Portal, Nintendo Switch eða Steam Deck.

Elko air mun sameina þægindi og skemmtun.
Elko air mun sameina þægindi og skemmtun. Samsett mynd

Kalli, Kamilla, Tommi og Gordon

Skógræktarfélag Eyfirðinga greindi frá því að Karl Bretakonungur og Kamilla drottning hafi sést í Kjarnaskógi. Hjónin ætluðu að blanda geði við heimafólk klukkan 17 í dag og gæði sér á kaffi og lummum. 

Hamborgarabúlla Tómasar greindi frá því að matsölustaðurinn hefði undirritað sérleyfissamning við breska kokkinn Gordon Ramsay. Samningurinn felst í því að opna 1.200 Tommaborgara í Norður-Ameríku á næstu þremur árum. 

Undirrita átti samninginn klukkan 19 af Tómasi A. Tómassyni, eigandi Hamborgarabúllunnar, og Gordon Ramsay. Tommi og Gordon myndu síðan grilla fyrir gesti í klukkustund. 

Skemmtigarður við jökullón og maður undir feldi

Vatnajökulsþjóðgarður leitaðist eftir aðila til uppbyggingar á skemmtigarði við eitt af jökullónum þjóðgarðsins. 

Á Þingvöllum fundu landverðir mann undir feldi undir pallinum á Lögbergi. Segir í færslu þjóðgarðarins að þarna hafi Þorgeir Logi Goðason legið í tvo sólarhringa.

Fólk hafi komið að máli við hann á meðan hann lá undir feldinum og ákvað Þorgeir því að bjóða sig fram til forseta. 

Pósturinn greindi frá því að póstboxum hefði verið komið fyrir í þremur strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu. Viðskiptavinir gætu þannig stokkið inn í vagn og sótt pakkann sinn. 

Indó og Smitten í samstarf

Vísir greindi frá stærðarinnar sólgleraugum sem sett hefðu verið upp við skrifstofur Sýnar á Suðurlandsbraut. 

Bókasafn Kópavogs greindi frá því að litakerfi hefði verið tekið upp í uppröðun bóka safnsins í stað Dewey-flokkunarkerfisins.

Í fréttatilkynningu frá sparisjóðnum Indó var greint frá því að Indó og stefnumótaforritið Smitten byðu nú upp á samstarf til þess að auka líkurnar á því að fólk finndi ástina. 

Sameiginlegum viðskiptavinum fyrirtækjanna byðist að tengja aðgangana sína og sjá líkurnar á því hversu vel þeir ættu saman með tilvonandi maka útfrá sparnaði og neyslumynstri. 

Smitten og Indó í samstarfi.
Smitten og Indó í samstarfi.

Þess má geta að mbl.is hlífði lesendum fyrir aprílgabbi þetta árið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert